Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 2. desember 1998 kl. 07:00

MOLAR Í MOLUM

Molahöfundur Suðurnesja- frétta hefur enn eina ferðina látið þvæla sér út í ófæruna með lítið annað í pokahorninu en viljan til að sá tortryggni. Í molum í síðustu viku heldur hann því fram að ég hafi skreytt mig með stolnum fjöðrum í kosningabaráttunni með lýsingu Reykjanesbrautarinnar og þeim árangri að tvöföldun hennar komst á langtímaáætlun. Það er reyndar að bera í bakkafullann lækinn að skrifa meira um þessi mál eftir prófkjörsslaginn, en þar sem molahöfundur er greinilega ekki kominn í jólaskapið ennþá tel ég mér skylt að hjálpa honum til þess með stuttum skýringum. Langtímaáætlunin dugði Það er kunnara en frá þurfi að segja að tvöföldun Reykjanesbrautar hefur verið mál málanna á Suðurnesjum um langa tíð og er enn, en það mun hafa verið Kolbrún Jónsdóttir sem fyrst kom með slíka tillögu inn á Alþingi. Efti að hún hvarf til annara starfa hafa margir tekið upp merkið og lagt fram tillögur um sama efni en því miður hefur enginn þessara tillagna náð fram að ganga. Þar sem venjulegar tillögur voru ekki nýtilegar til að ná stórum vegaframkvæmdum eins og Reykjanesbrautinni inn á vegaáætlun, varð sú hugmynd til á fundi meirihluta samgöngunefndar Alþingis og samgönguráðherra að gera langtímaáætlun í vegagerð sem næði 12 ár fram í tímann. Þar sem ég á sæti í samgöngunefnd og er í meirihlutanum er ég mjög kunnugur þessu ferli og því hvernig þessum áfanga varð loksins náð að tvöföldunin kæmist á áætlun ásamt fleirri stórum verkefnum. Frá þessu hef ég greint í blöðum og aldrei sagt að ég hefði staðið einn að því, fyrst og síðast ber að þakka það miklum Suðurnesjamanna og vilja samgöngráðherra til að leita nýrra leiða. Lýsingin er staðreynd Sama er upp á teningnum með lýsinguna, Guðmundur Hallvarðsson lagði fyrir mörgum árum fram tillögu um lýsingu Reykjanesbrautar sem náði því miður ekki fram að ganga. Við Sjálfstæðismenn lögðum það aftur á móti fram sem kosningaloforð fyrir síðustu kosningar að lýsa brautina og skrifaði ég greinar um þetta mál ásamt því að vekja stöðuga athygli á því í útvarpi og í fréttum. Sú ákvörðun að lýsa brautina var ekki tekin fyrr en eftir kosningar 1995 því fyrstu hugmyndir sem komu á borð þingmanna eftir kosningar um lagfæringar á brautinni, voru að setja eina akrein til viðbóta frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar. Lýsing var ekki einu sinni á blaði í þeim tillögum sem komu fram frá vinnuhópi sem þáverandi þingmenn settu á laggirnar á síðast kjörtímabili til að skoða úrbætur á Reykjanesbrautinni. Lýsingin hefði alldrei komist í gagnið ef ekki hefði komið til eindregin afstaða mín og fleiri í því máli. Að fjargviðrast yfir því að ég berðist opinberlega fyrir lýsingunni er eins og að segja, að Hjálmar Árnason megi ekki tala um vetnið af því hann talaði ekki um það fyrstur eða að Gunnar Birgisson mætti ekki láta ljósmynda sig við tvöfalda Reykja nesbrautina af því hann talaði ekki um hana fyrstur. Skrif eins og molahöfundur hefur tamið sér síðustu árin um menn og málefni eru okkur Suðurnesjamönnum ekki til framdráttar, né til að skapa einingu og samhug í okkar heimahögum. Það sem er mikilvægara fyrir okkur Suðurnesjamenn er að byggja upp jákvæða ímynd af Suðurnesjum og lífinu hér. Hingað þurfum við fleira fólk og öflug fyrirtæki sem skapa okkur þá framtíð sem mannauðurinn hér og möguleikarnir búa yfir. Þannig eigum við að horfa fram á veginn, inn í nýja öld, sterkir og sameinaðir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024