Mögnuð menningarveisla að Útskálum
– Eivør Pálsdóttir og aðrir einvala listamenn leggja hollvinum Unu í Sjólyst lið.
Það var mögnuð menningarveisla að Útskálum á dögunum. Þar stóð Hollvinafélag Unu Guðmundsdóttur fyrir menningardagskrá til styrktar húsi Unu, Sjólyst í Garði.
Fjöldi listamanna kom fram á menningarkvöldinu. Allt listafólkið gaf vinnu sína en aðgangseyrir rann óskertur til áframhaldandi uppbyggingar þeirrar menningarstarfsemi sem unnið er að í Sjólyst. Húsið hefur verið opið um helgar tvö undanfarin sumur og margir komið í heimsókn og átt þar notalegar stundir. Í undirbúningi er að koma húsinu í sem upprunalegast horf og hafa þar opið áfram um helgar.
Þau sem komu fram voru: Eivør Pálsdóttir, Bylgja Dís Gunnarsdóttir, Hilmar Örn Hilmarsson, Páll Guðmundsson frá Húsafelli, Steindór Andersen, Birna Rúnarsdóttir og Jónína Einarsdóttir. Þá las Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur upp úr bókinni Völva Suðurnesja eftir Gunnar M. Magnús. Þar er sagt frá Unu Guðmundsdóttir. Anna Hulda Júlíusdóttir djáknanemi flutti hugvekju. Kynnir var Séra Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur í Útskálaprestakalli.
Um eitthundrað manns sóttu viðburðinn í Útskálakirkju sem þau Kristín Júlla Kristjánsdóttir og Guðmundur Magnússon sáu um að skipuleggja. Kristín hefur verið dugleg við að auðga mannlífið í Garði og m.a. fengið þangað tónlistarfólk til tónleikahalds á aðventunni undanfarin ár. Þá hefur Kristín verið að leggja hollvinasamtökum Unu lið og dregið gesti og gangandi í kaffisopa í Sjólyst. Þar er því að verða vísir að einu alminnsta kaffihúsi landsins í eldhúsinu í Sjólyst. Guðmundur er af sama skapi mikill áhugamaður um mannlíf og menningu í Garði og hefur á undanförnum árum verið duglegur að safna heimildum úr sögu sveitarfélagsins. Hann er einnig vítamínsprauta í verkefninu um Sjólyst, húsið hennar Unu. Þar hefur hann í félagi við aðra lyft Grettistaki. Guðmundur vinnur m.a. að heimildarmynd um Unu Guðmundsdóttur.