Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

MND gefur út hljóðbókina Björt framtíð
Þriðjudagur 26. maí 2009 kl. 16:51

MND gefur út hljóðbókina Björt framtíð


"Björt framtíð" er safn greina eftir 49 höfunda sem komin er út á hljóðbók á vegum MND félagsins. Höfundar greinanna koma úr ýmsum áttum en meðal þeirra eru: forseti og biskup Íslands, bæjarstjórar, húsmóðir, prófessorar, verkstjórar, iðnaðarmaður, forstjórar, klæðskeri og prestar. Í tilefni af útgáfunni bauð MND félagið greinahöfundum og aðstandendum verksins til fundar í Fjörugarðinum í Hafnarfirði í hádeginu í gær þar sem Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands var afhent fyrsta eintakið af hljóðbókinni.

„Af hálfu MND félagsins er útgáfunni ætlað að vera mótvægi við þeim slæmu fréttum sem dunið hafa á íslensku þjóðinni undanfarna mánuði og er það von félagsins að útgáfan verði þeim sem á hlýða til uppörvunar og stuðli um leið að aukinni ánægju og vellíðan þjóðarinnar," segir í tilkynningu frá félaginu. „Það má segja að félagið sé með þessu að benda fólki á mikilvægi þess að missa aldrei vonina.Við sem erum MND veik höfum lifað við lyfjakreppu og án lækningar í 100 ár. Ef þessar greinar vekja einstaka bros og von hjá þeim sem á hlýða þá er takmarkinu náð. Það sem heldur okkur í MND félaginu gangandi og eykur lífsgæði okkar í þessu svartnætti, er vonin og það að sjá ljósglætu framundan," segir Guðjón Sigurðsson formaður MND félagsins í tilkynningu.

Upplestur á hljóðdisknum „Björt framtíð" skiptist þannig að ávarp formanns MND félagsins og kynningar les Pálmi Gestsson leikari. Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson les eigin grein en aðrar greinar lesa leikararnir Álfrún Helga Örnólfsdóttir og Friðrik Friðriksson.

Hljóðbókin er safn þriggja hljóðdiska og verður hún seld í símasölu næstu vikurnar. Einnig verður hægt að panta hana í gegnum heimasíðu MND félagsins www.mnd.is

Gangi salan vel mun ágóðinn renna í rannsóknasjóð félagsins auk þess sem hann verður nýttur til stuðnings ýmsum verkefnum sem félagið vinnur að um þessar mundir og til að styrkja MND sjúka til tækjakaupa og fagfólk sem vill leita sér aukinnar þekkingar.

Víkurfréttir sáu um hönnun á umslagi hljóðbókarinnar og útlit á diskum. Umslagið og diskana prýða listaverk eftir Helgu Unnarsdóttur leirkerasmið.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024