Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Mjólkurleysi og íbúafjölgun
Sunnudagur 5. febrúar 2012 kl. 11:41

Mjólkurleysi og íbúafjölgun



Hvergi fjölgar íbúum meira en á Suðurnesjum en fjölgunin nemur 25% á sex árum, 2004 til 2010. Á sama tíma heldur fólk áfram að flytja frá Vestfjörðum. Þar er næg atvinna en að sama skapi ekki hér á Suðurnesjum nú um stundir. Svolítið öfugsnúið.

Fjöldi nemenda í grunnskólum hefur einnig fjölgað mest hér á Suðurnesjum yfir allt landið eða um 10%. Aðstaða til skólahalds er til fyrirmyndar í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum, margir nýir skólar eða gamlir verið stækkaðir og endurbyggðir á síðasta áratug og því auðveldlega hægt að taka við fjölgun nemenda. Dökka hliðin á allri þessari fjölgun er þó sú að á sama tíma og mikil fjölgun hefur orðið hefur ástand í atvinnumálum versnað gríðarlega mikið eftir kreppu. Þessi fjölgun kemur því tímabundið illa fyrir sveitarfélögin. Minni tekjur bæjarbúa þýða minni útsvarsgreiðslur til sveitarfélaganna og meira atvinnuleysi þýðir líka að auknar byrðir lenda á sveitarfélögunum. Kannski ástæðan fyrir því að forráðamenn Reykjanesbæjar eru hættir að fagna fjölguninni á skiltinu flotta sem var við Reykjanesbraut. Hluti af fjölgun í Reykjanesbæ eru nýbúar á gamla varnarsvæðinu, nú Ásbrú. Þar búa aðallega nemendur sem skila litlum tekjum til bæjarins en nýta sér margvíslega þjónustu hans.

Hér hefur orðið kostnaðaraukning fyrir Reykjanesbæ sem ríkið hefur ekki mætt eins og rætt var um þegar ákveðið var að breyta gamla Vellinum í skólabæ. Hér er alls ekki verið að tala niður til þessa fólks, síður en svo, það mun skila sínu til samfélagsins á margvíslegan hátt þegar þeir hafa lokið sínu námi og ekki vildum við hafa gamla varnarsvæðið með tómum byggingum. Þessir íbúar nota líka verslun og þjónustu á svæðinu sem er gott. Við vorum með Kanann í rúma hálfa öld og hingað fluttu margir til að starfa þar. Þegar Kaninn fór var besta björgunarráðið í margvíslegu tilliti að gera hersvæðið að skólabæ var því lofað af ríkinu að hjálpa til í því efni. Ríkið lofaði líka að hjálpa til við að finna rúmlega eitt þúsund manns sem misstu atvinnu sína hjá Varnarliðinu ný störf. Við þetta tvennt hefur ekki verið staðið. Það er miður.

Það er sérstakt ástand sem íbúar í sveitarfélaginu Vogum á Vatnsleysuströnd búa við. Þeir geta ekki farið út í búð í sveitarfélaginu og keypt helstu nauðsynjavörur eins og mjólk og brauð því verslunin sem þar hefur verið starfrækt hefur lokað. Um ellefu hundruð íbúar þurfa því að kaupa sínar helstu nauðsynjar í öðrum bæjarfélögum. Í Vogum hefur orðið mikil íbúafjölgun á síðasta áratug en þeir þurfa að sækja margvíslega þjónustu út fyrir bæjarfélagið. Ef þeir vilja fá þjónustu í bæjarfélagið, þó ekki væri nema þá allra nauðsynlegustu eins og matvöruverslun, þá verða þeir að skipta við hana. Í þessu sambandi er hægt að vísa þessari ábendingu til bæjarbúa í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Ef við viljum hafa þjónustu þá verðum við að nýta hana á staðnum, hvort sem það eru kaup á mjólk, fatnaði eða annarri nauðsynjavöru. Hljóðið í verslunareigendum í Reykjanesbæ hefur þyngst að undanförnu því verslun hefur færst í nokkrum flokkum til höfuðborgarsvæðisins og til útlanda. Sama gæti gerst þar og í Vogum ef við beinum okkar viðskiptum ekki til verslunar og þjónustu í okkar bæjarfélagi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024