Mjög hentugt þegar kom að því að finna nafn á tannlæknastofuna
Nöfn: Kristín Erla Ólafsdóttir og Kristín Geirmundsdóttir
Aldur: 39 ára og 57 ára
Menntun: Við erum báðar tannlæknar
Við hvað starfið þið og hvar?
Erum tannlæknar á Tannlæknastofu Kristínar á Hafnargötu 45
Hver eru helstu verkefni?
Allar almennar tannlækningar, bæði hjá börnum og fullorðnum, og almennur rekstur á tannlæknastofunni.
Er eitthvað sem gerir verkefnið eða fyrirtækið einstakt, forvitnilegt?
Alltaf að reyna að fylgja nýjustu stefnu og nýjustu tækni í tannlæknaheiminum. Okkar markmið er einnig að veita góða þjónustu og vinnum að því að láta fólkinu okkar líða sem allra best í okkar umhverfi. Við höfum verið heppnar með starfsfólk og hvor aðra. Það gerir okkar fyrirtæki einstakt.
Eitthvað áhugavert sem þið eruð að gera?
Nýjasta nýtt hjá okkur á stofunni eru tannréttingarmeðferðir með skinnum, eitthvað sem er ótrúlega spennandi og við spenntar að halda áfram með það og sjá þróun á þeim markaði. Einnig eru miklar nýjungar í sambandi við allar tannlækningar sem tengjast tannsmíði, þar ber fyrst að nefna skönnun og þrívíddarprentun. Miklar og skemmtilegar nýjungar sem gaman er að fylgja eftir. Við erum duglegar að sækja endurmenntun, bæði hér heima og erlendis, þar sem við reynum ávallt að fylgja nýjustu straumum og stefnum.
Hvað hafið þið verið að gera?
Kristín Erla útskrifaðist frá tannlæknaháskólanum í Árósum 2011, flutti þá strax heim þar sem Kristín G. beið eftir henni með stól og höfum við unnið saman síðan. Kristín Erla byrjaði reyndar sem aðstoðardama á stofunni 2005. Kristín Geirmundsdóttir útskrifaðist frá Oslóarháskóla 1990 og hefur starfað í Keflavík síðan, fyrst sem aðstoðartannlæknir og síðar á eigin stofu. Ekki leiðinlegt að vinna með bestu vinkonu sinni alla daga og í dag rekum við saman tannlæknastofu Kristínar. Mjög hentugt þegar kom að því að finna nafn á tannlæknastofuna okkar.
Hvað eruð þið að gera núna?
Störfum sem tannlæknar og erum báðar miklar fjölskyldukonur, Kristín Erla á þrjú börn, Kristín Geirmunds á tvö stálpuð börn. Reynum að huga vel að heilsunni og erum að stunda almenna heilsurækt alla daga, hlaup, golf og fjallgöngur.
Framtíðarplön:
Halda áfram að byggja upp góðan rekstur og veita eins góða þjónustu eins og hægt er.
Hversu lengi hafið þið búið á Suðurnesjum?
Kristín Erla er fædd og uppalin í Garðinum, en flutti til Danmerkur til að læra í fimm ár, kom svo aftur 2011 og settist þá að í Reykjanesbæ. Kristín Geirmundsdóttir er fædd og uppalin í Keflavík, bjó eitt ár í Reykjavík eftir stúdentsprófið og fór síðan til Osló í fimm ár og settist að í Keflavík.
Hverjir eru kostir þess að búa á Suðurnesjum?
Hér höfum við alla þjónustu sem við þurfum, þó nálægð við höfuðborgina komi sér oft vel. Stutt í almenna útivist og á flugvöllinn.
Hvernig líst ykkur á nýja félagið okkar, FKA Suðurnes?
Frábært félag og mikil tækifæri fyrir konur á svæðinu.
Hvað varð til þess að þið skráðuð ykkur í FKA?
Við nöfnur ákváðum að þetta væri spennandi tækifæri fyrir okkur.
Hvað finnst ykkur FKA gera fyrir ykkur?
Það víkkar sjóndeildarhringinn að kynnast fólki sem við hefðum kannski annars ekki kynnst.
Heilræði/ráð til kvenna á Suðurnesjum:
Styrkjum hvora aðra, stöndum saman.
Konur eru konum bestar!