Missi aldrei af þáttunum mínum Með okkar augum
Magnús Orri Arnarson er átján ára gamall, að verða nítján núna í september. Magnús vinnur við sjónvarps- og kvikmyndagerð og er einnig að starfa sem fimleikaþjálfari og stuðningsfulltrúi á skammtímavistun. Hann starfar í björgunarsveit og hefur mikinn áhuga á lögreglustörfum ásamt því sem kvikmyndagerð á hug hans allan. Magnús Orri svaraði nokkrum spurningum í Netspjalli við Víkurfréttir.
– Nafn:
Magnús Orri Arnarson.
– Árgangur:
2001.
– Búseta:
Garður, Suðurnesjabær.
– Hverra manna ertu og hvar upp alin?
Ég bý með fjölskyldu minni og einum yndislegum hundi sem heitir Gloría. Ég er ættleiddur frá Kalkútta á Indlandi og hef búið á Íslandi frá því ég var hálfs mánaða gamall og tala fulla íslensku.
– Hvert var ferðinni heitið í sumarfrínu?
Ferðin var heitin á nokkra staði, t.d á Vík í Mýrdal þar sem við, sjónvarpshópurinn Með okkar augum, vorum að taka þar upp og skelltum okkur einnig í zipline sem var bara heví gaman.
– Skipulagðir þú sumarfríið fyrirfram eða var það látið ráðast af veðri?
Að mestu leiti voru ferðir skipulagðar eftir verði og hvenær -upptökur gátu hafist á ný vegna Covid-19.
– Hvaða staður fannst þér áhugaverðast að heimsækja í sumar?
Akureyri og Vík í Mýrdal.
– Hvað kom skemmtilega á óvart í sumar?
Hvað allir voru hamingjusamir og kurteisir á þeim stöðum sem við vorum á.
– Áttu þér uppáhaldsstað til að sækja heim innanlands?
Já, Akureyri City allan daginn, förum alltaf þangað um versló.
– Ætlar þú að ferðast eitthvað meira innanlands á næstunni?
Nei, ekki eins og er en hver veit að maður fari eitthvað með Björgunarsveitinni eða bara í tökum í vetur :-)
– Hvert er þitt helsta áhugamál?
Kvikmyndagerð er mitt helsta og skemmtilegasta áhugamál en ég hef mikinn áhuga á björgunarsveit, fimleikum og fimleikaþjálfun.
– Hvernig slakarðu á?
Ég slaka yfireitt aldrei á, ég er alltaf að vinna. Á sumrin er ég í tökum alla daga til kl. 17 og svo að klippa til u.þ.b. eitt eða tvö á kvöldin, á veturnar er ég að þjálfa og æfa eftir skóla og langt fram á kvöld.
– Hvaða matur er í uppáhaldi hjá þér?
Minn uppháhaldsmatur hlýtur að vera mexíkósk kjúklingasúpa að hætti mömmu.
– Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana?
Ummm ... ég er voða mikið að hlusta þessa dagana á tónlist sem var í Eurovision-myndinni og svo fíla ég mikla stuðtónlist og nota það voða mikið í klippum sem ég klippi. Svo er eg stundum á búa sjálfur til tónlist fyrir RÚV og svona.
– Horfirðu mikið á sjónvarp og hvernig?
Ég er núna búinn að horfa mikið á Stöð 2 maraþon á bara allskonar þætti.
– Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu?
Ég missi aldrei af þáttunum mínum Með okkar augum.
– Besta kvikmyndin?
Besta kvikmyndin heitir Wonder sem kom út árið 2017.
– Hver er uppáhaldsbókin þín?
Ætli hún sé bara Morgunblaðið? NEI DJÓK!
– Hvað fer mest í taugarnar á þér?
Mesta sem fer í taugarnar á mér þegar klippiforritið „krassar“ og ég gleymdi að vista, þá verð ég ekki glaður.
HAHAHA ...
– Uppáhaldsmálsháttur eða -tilvitnun:
Fatlaðir geta ekki breytt því hvernig þeir eru en kannski getum við breytt hvernig við sjáum.
– Orð eða frasi sem þú notar of mikið:
„Þetta er ein stór VEIZLA,“ er það sem ég nota eiginlega of mikið.
– Hver væri titillinn á ævisögu þinni?
„Hjálpsamur og kurteis“.
– Hver er tilfinning þín fyrir haustinu og komandi vetri?
Ég vona að allir muni njóta komandi tíðar sem er að koma þrátt fyrir covid og hlýði fyrirmælum landlæknis og almannavarna.
– Hver er besti brandari sem þú hefur heyrt nýlega?
Besti brandarinn er að ég labbaði á ljósastaur í miðjum tökum með u.þ.b. sex kílóa myndavél á mér og það skemmtilega við það að er að það náðist á mynd.
Sjáið myndasafn hér að neðan.