Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 15. ágúst 2002 kl. 10:27

Miklar væntingar gerðar til Ljósanætur

Nú eru aðeins um þrjár vikur í menningar- og fjölskylduhátíðina “Ljósanótt" en hún verður nú haldin 7. september n.k. Að sögn Steinþórs Jónssonar, formanns Ljósanætur eru væntingar bæjarbúa og annara gesta miklar þar sem fyrstu tvær hátíðirnar gengu vonum framar. “Það er mikil pressa á okkur í undirbúningsnefndinni að Ljósanótt 2002 takist vel og streyma hugmyndir og ábendingar inn á borð til okkar. Af sjálfsögðu reynum við að verða við öllum ábendingum og er markmiðið að gera enn betur á Ljósanótt 2002. Við bætum nýjum uppákomum í dagskrána til að tryggja að allir finni eitthvað við sitt hæfi og reynum líka að koma á óvart á hátíðinni sjálfri. Hvort við fáum fleiri gesti nú í ár er undir bæjarbúum sjálfum komið", segir Steinþór.“Eins og fólki er kunnugt er sönglagakeppni um Ljósalagið á morgun og hefur sú hugmynd og framkvæmd verið til fyrirmyndar og gaman að finna fyrir þeim gríðarlega áhuga sem er á keppninni. Við höfum þegar valið tíu lög til úrslita og mun dómnefnd ásamt fólki úr sal velja Ljósalagið 2002".

Stærsta breytingin frá því í fyrra er að dagskrá Ljósanætur nær nú frá fimmtudegi til sunnudags en þó með hápunkti á laugardeginum eins og áður. Með þessu gefst kostur á að koma inn atriðum sem eru sérhæfð og taka jafnvel lengri tíma t.d. íþrótta- og tómstundauppákomur, tónleikar og fleira. Má til dæmis nefna útitónleika á föstudagskvöldið þar sem tíu hljómsveitir af svæðinu troða upp ásamt landsfrægri hljómsveit í boði Vífilfells en þetta fyrirkomulag gefur stærri fyrirtækjum á Íslandi mögulega innkomu í dagskrána. Þá verða einnig mjög spennandi tónleikar með Bylgju Dís Gunnarsdóttir sópransöngkonu í Kirkjulundi á föstudagskvöldið.

Hvað varðar ný atriði segir Steinþór þau vera fjölmörg og nefnir sérstaklega útitónleikanna, hagyrðingamót, þyrluflug, sérstök myndlistarsýning Einars Garibaldi í Duushúsum, fjöllistaverkið Ástin og lífið svo og leikritið Gesturinn frá Þjóðleikhúsinu en aðalleikari er Gunnar Eyjólfsson listamaður Reykjanesbæjar. Þá stendur til að frumsýna kvikmyndina Dauða köttinn sem m.a. var tekin upp í gamla bæjarhlutanum í Keflavík í sumar. Stefnt er að fyrstu drög af dagskránni verði sett inn á vef Ljósanætur í dag,
www.ljosanott.is. Gera má ráð fyrir að dagskráin taki breytingu fram að hátíðinni eins og áður enda ný atriði og uppákomur að bjóðast fram á síðustu stundu. Vildi Steinþór koma á framfæri beiðni um að þeir aðilar sem hefðu áhuga en hefðu ekki enn komið sér á framfæri sendu erindi sem fyrst og einnig þeir sem vilja endurtaka sitt framlag frá
síðasta ári.

Undirbúningur hefur gengið vel að sögn Steinþórs en mikil vinna liggur framundan á undirbúningsnefndinni. Þá koma af sjálfsögðu þjónustufyrirtæki s.s. Stapinn, Ráin, N1, Duus og fleiri að dagskránni með fjölmargar uppákomur auk tugi fyrirtækja sem verða með opið hús, tilboð og fleira. Má því segja að þátttakendur skipti í raun hundruðum. “Að sjálfsögðu er aðalamarkmið Ljósanætur nú eins og fyrr að bæjarbúar komi saman og skemmti sér með hvort öðru. Við munum gera okkar besta til að svo verði. Hvað varðar veðrið hef ég samið um hæglætisveður á fimmtudegi til laugardags með sólarglennum af og til og hægum vindi af norðri en á sunnudeginum má búast við að þykkni nokkuð upp með vindi úr suð-austri", sagði Steinþór formaður ljósanætur að lokum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024