Mikilvægt að vera góður við náungann
-Maður ársins bakaði og seldi kökur fyrir hálfa milljón og styrkti Barnaspítala Hringsins
„Markmiðið mitt áður en ég yrði átján ára var að gefa rosalega mikið af mér,“ segir hin sautján ára Elenora Rós Georgesdóttir, en Víkurfréttir hafa nú valið hana sem „Mann ársins“ á Suðurnesjum árið 2017. Elenora ákvað í byrjun árs að safna pening til styrktar Barnaspítala Hringsins og í desember síðastliðinum afhenti hún spítalanum hálfa milljón sem hún safnaði algjörlega upp á eigin spýtur. Elenora safnaði peningnum með því að baka kökur og selja þær í gegnum Facebook-síðuna sína, Le´Nores Cakes.
Elenora bakaði kökuna fyrir „Mann ársins“, áður en hún vissi hver það væri.
„Mér finnst svo margir hafa gert eitthvað gott fyrir mig og mér fannst ég skulda heiminum það að gefa af mér til baka,“ segir Elenora, en hún hefur í þónokkur skipti dvalið á Barnaspítalanum vegna meðfædds sjúkdóms og þurft að fara í nokkrar aðgerðir. „Hjúkrunarkonurnar á Barnaspítalanum eru eins og englar. Fólkið þar hefur hjálpað mér svo mikið.“
Varð að safna hálfri milljón
Hugmyndin að söfnuninni kviknaði hjá Elenoru einn sjaldgæfan frídaginn, en hún var ekki lengi að ákveða hvernig hún skyldi safna peningnum þar sem hún stundar nám við bakaraiðn í Menntaskólanum í Kópavogi og hefur mjög mikinn áhuga á bakstri.
Elenora ætlaði upprunalega að safna peningum fyrir spítalann í um það bil hálft ár, en fyrirspurnirnar eftir kökum urðu fleiri og fleiri og henni fannst hún ekki geta hætt strax. „Þegar ég var komin með 300 þúsund fannst mér ég verða að safna hálfri milljón. Þetta var ótrúlega mikill peningur að mínu mati, með skóla og vinnu og öllu því sem ég var þar að auki að sinna.“
Eftir að Elenora opnaði Facebook-síðuna liðu ekki nema um það bil þrjár klukkustundir þar til hún fékk fyrstu pöntunina. „Það var mamma vinkonu minnar, svo hringdi frænka mín í mig og svoleiðis var þetta bara koll af kolli. Ég var með svona þrjár kökur í hverri viku í minnsta lagi og ég var aldrei í fríi um helgar,“ segir hún, en verkefnið fannst henni ótrúlega skemmtilegt þó það hafi vissulega verið ótrúlega krefjandi.
Alltaf langað að verða bakari
Elenora ver miklum tíma þessa dagana í bakaríinu Sandholti á Laugaveginum, en þar er hún í starfsnámi. Hana hefur alltaf langað til þess að verða bakari.
„Ég var staðráðin í því að verða bakari þegar ég var lítil. Það er ekkert sem mér finnst leiðinlegt að gera í bakaríinu, nema að skræla epli, ég er voðalega lítið fyrir það,“ segir hún og hlær. Alls kyns kökur og tertur, vínarbrauð og krem þykir Elenoru heillandi og einn daginn stefnir hún á það að opna sinn eigin stað. „Mig langar að geta ráðið öllu og gert allt rosalega huggulegt.“
Hún er þó mjög sátt í starfsnáminu sínu í Sandholti og segir fólkið þar yndislegt og bakaríið flott. „Við gerum allt frá grunni, það er ekkert keypt frosið eða innflutt sem mér finnst skipta rosalegu miklu máli. Það er mikið skipulag á staðnum og mér er hent út í öll verkefni sem er ótrúlega krefjandi en það styrkir sjálfstraustið mitt og mér finnst það skemmtilegt. Ég gæti ekki hugsað mér að gera neitt annað.“
Hleypur hálft maraþon
Elenora bakaði þó ekki einungis kökur til að safna pening fyrir Barnaspítalann heldur hljóp hún einnig í Reykjavíkurmaraþoninu síðastliðið sumar. „Ég hef aldrei verið mikil íþróttamanneskja en þetta var ótrúlega skemmtilegt. Ég kom heim frá Danmörku fjórum klukkutímum fyrir maraþonið sjálft. Ég vissi ekkert hvað ég var að koma mér út í en ég ákvað þó að skella mér í þetta. Tilfinningin að koma í mark var ótrúleg og stemningin var klikkuð.“
Næsta sumar stefnir Elenora á það að taka þetta ennþá lengra og hlaupa 21 kílómetra. „Sú ákvörðun var rosalega óútpæld en ég er núna búin að kaupa mér kort í ræktina, sem ég held að sé svona fyrsta skrefið, þó ég sé bara búin að mæta einu sinni. Það eru átta mánuðir í þetta og ég held að þetta verði allt í lagi,“ segir hún og hlær. Aðalatriðið sé málefnið, en ekki það að vera fyrst í mark.
„Þarna eru allir að styrkja fallegt málefni og láta gott af sér leiða. Það eru allir í þessu saman, fullt af fólki á hliðarlínunni að hvetja mann áfram, fólk í heimahúsum að bjóða hlaupurum upp á vatn að drekka og góð tónlist. Ég er bara spennt fyrir því að fara lengri leið núna og upplifa ennþá meiri stemningu,“ segir hún.
Elenora ásamt foreldrum sínum, George William Coutts og Ragnhildi Ævarsdóttur.
Stoppar aldrei
Það er sjaldan pása hjá Elenoru Rós en henni finnst mikilvægt að vera virk og leiðinlegt að hafa lítið að gera. Hún byrjar flesta morgna á góðum morgunmat og góðri tónlist klukkan sjö og vinnur svo hörðum höndum í bakaríinu frá klukkan átta til sex. „Það er oftast nóg að gera hjá mér frá því ég vakna og þar til ég fer að sofa. Það bíður mín oftast eitthvað verkefni þegar ég klára að vinna. Þessa dagana erum við að setja upp söngleikinn Hairspray í skólanum.“
Þá daga sem Elenora er í fríi nýtir hún vel, en hún segist þó vera örsjaldan í fríi. „Ég finn mér annars alltaf eitthvað skemmtilegt að gera.“
Hægt að láta gott af sér leiða á marga vegu
Tilfinningin sem Elenora upplifði þegar hún afhenti Hrings-konum peninginn eftir alla vinnuna segir hún hafa verið afar góða, en Hrings-konur höfðu aldrei áður fengið svona unga manneskju til sín sem safnað hafði jafn hárri upphæð fyrir spítalann.
„Þetta er það besta sem ég hef gert í lífinu og það var svo góð tilfinning að labba þaðan út. Ég var í alvöru með tárin í augunum og brosandi út að eyrum.“
Viðbrögðin þegar Elenora var beðin að skrifa eigið nafn á kökuna.
Elenora stefnir á það að safna fyrir gott málefni aftur einn daginn, en hvaða málefni verður fyrir valinu er hún ekki viss með.
Eftir allt erfiðið og alla vinnuna sem fylgdi því að safna þessum fjármunum fyrir Barnaspítala Hringsins hlýtur Elenora titilinn „Maður ársins“ sem hún segist þó ekki hafa búist við. „Ég vissi ekki hvort þetta væri einhver brandari. Þetta er ótrúlega góð tilfinning.“ Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, sagði þegar hann tilkynnti Elenoru um tilnefninguna að hún væri glæsileg fyrirmynd ungs fólks, léti drauma sína rætast um leið og hún léti gott af sér leiða. Elenora, sem sjálft er að vinna með uppskriftir alla daga, er sjálf frábær uppskrift til að fá þessa nafnbót, „Maður ársins á Suðurnesjum 2017.“
Elenora Rós ásamt Páli Ketilssyni, ritstjóra.
Það skiptir miklu máli að láta gott af sér leiða að hennar sögn, en það þurfi þó ekki að vera á sömu vegu og hún gerði. „Maður þarf ekkert að gefa margar milljónir til að láta gott af sér leiða. Það er bara mikilvægt að vera góður við náungann.“