Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikilvægt að missa ekki móðinn
Fimmtudagur 1. janúar 2009 kl. 01:50

Mikilvægt að missa ekki móðinn



Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri HSS:


Árið 2008 hefur í mörgu verið athyglisvert hér á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.  Á fyrri hluta ársins fór mikil vinna í að reyna að fá leiðréttingar á fjárveitingum til stofnunarinnar.  Sérstaklega hefur verið horft til heilsugæslunnar sem við teljum að hafi ekki fengið það sem henni ber m.a. vegna mikillar og hraðrar íbúafjöldaaukningar.  Nokkur leiðrétting hefur fengist en betur má ef duga skal.

Nýjar skurðstofur voru opnaðar um mitt árið 2008 sem eru með þeim bestu á landinu, þar eru tvær almennar skurðstofur og eitt smærra meðferðarherbergi m.a. fyrir speglanir. 
Viðhaldi  bygginga HSS hefur lengi verið ábótavant.  Nú horfir til betri vegar því vinna við viðhald og útlit stofnunarinnar er hafið.  Vinnan hófst í haust og verður öllum sjúklingum, íbúum og starfsfólki vonandi til ánægju og sóma þegar verkinu lýkur á árinu 2009.
Sömuleiðis höfum við fengið loforð fyrir því að lóðin umhverfis stofnunina verði tekin í gegn á næsta ári og er það ekki síður tilhlökkunarefni.

Við höfum ekki farið varhluta af kreppunni alræmdu frekar en aðrir í þjóðfélaginu.  Allra leiða er nú leitað á HSS til að draga úr rekstrarkostnaði.  Starfsfólk mun eftir sem áður leggja sig fram við að leysa úr vanda allra sjúklinga og skjólstæðinga eins vel og best má verða.

Það er ljóst að við eigum öll erfitt ár framundan en í erfiðleikunum felast líka tækifæri og nýjar hugmyndir fá byr undir báða vængi.  Það er mikilvægt að missa ekki móðinn heldur snúa bökum saman, halda ótrauð áfram og gleyma ekki öllu því jákvæða sem er að gerast allt í kringum okkur. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024