Mikilvægt að forða sér af höfuðborgarsvæðinu
Víkurfréttir spurðu Suðurnesjamenn út í áform þeirra um verslunarmannahelgina en fólk er ýmist á leið á útihátíðir með vinunum, í sumarbústað með fjölskyldunni eða slaka á heima við og njóta kyrrðarinnar.
Ásgrímur Rúnarsson er tvítugur Keflvíkingur sem vinnur hjá Íslandsbanka. Að auki spilar hann fótbolta með Njarðvík. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er í miklu uppáhaldi hjá Ásgrími og ætlar hann ekki að láta sig vanta í Vestmannaeyjar þetta árið.
Hvað á að gera um verslunarmannahelgina og hvert á að fara? Ég stefni á að fara á Þjóðhátíð á laugardeginum, maður má ekki missa af þessu!
Er einhver verslunarmannahelgi sem er eftirminnilegri en aðrar hjá þér? Verslunarmannahelgin árið 2011 var ótrúlega skemmtileg, þá fórum við nokkrir vinir saman á fimmtudeginum til Vestmannaeyja og vorum alveg fram á mánudag og skemmtum okkur gríðarlega vel, sú helgi mun seint gleymast.
Hvað finnst þér einkenna góða verslunarmannahelgi og finnst þér eitthvað vera ómissandi um þessa helgi? Mér finnst að um verslunarmannahelgina verði maður að forða sér frá höfuðborgarsvæðinu og koma sér eitthvað út á land, hitta vini og gera eitthvað eftirminnilegt.