Mikill árangur af starfi Leitarstöðvarinnar
Nú þegar yfir stendur leit að krabbameini í leghálsi og brjóstum kvenna á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands skal á það bent að á s.l. árum hefur árangur af starfinu vakið heimsathygli. Allt skipulag og stjórnun er með þeim hætti að dánartíðni vegna leghálskrabbameins hefur lækkað um 75% og nýgengi um 67%. Af konum sem greinast með þennan sjúkdóm eru um 70% á fyrsta stigi og þar af fjórar af hverjum fimm á svonefndu hulinstigi þar sem búast má við fullum bata með einfaldri aðgerð, keiluskurði, sem ekki skilur eftir sig varanlegan skaða. Ef nýgengi væri það sama og í upphafi leitarstarfsins má ætla að 150 fleiri konur hefðu látist af völdum sjúkdómsins. Tíðni forstiga sjúkdómsins fer þó vaxandi, einkum meðal yngri kvenna og virðist þróunarferill þessa krabbameins mun hraðari en áður var ætlað.Sökudólgurinn er í 95% tilfella talin vera humanpapiloma veira sem verið er að vinna bóluefni gegn. Væntanlega munu líða áratugir uns árangurs er að vænta af því starfi. Á meðan er greining forstiga með leghálsstroki okkar leið til að sporna við nýgengi leghálskrabbameins.Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein hjá konum og nýgengi þess hefur heldur aukist á síðustu árum, sumpart vegna betri greiningatækni og sumpart vegna raunverulegrar aukningar á sjúkdóminum. Lífslíkur eru þeim mum betri því fyrr sem sjúkdómurinn uppgötvast. Þess vegna hefur brjóstamyndataka öðlast stöðugan sess í því forvarnarstarfi sem beint er að brjóstakrabbameini. Til þess að auðvelda konum að mæta í brabbameinsleit hefur hún verið færð nær fólkinu á hverjum stað.Á Heilsugæslunni okkar fer nú slíkt starf fram og hafa um 1600 konur af svæðinu fengið bréf send í pósti heim til sín. Við hvetjum nú ykkur, Suðurnesjakonur, að bregðast rétt við og panta ykkur þegar tíma. Leitinni lýkur þann 15. mars og þa kann að henda að einhver hafi orðið of sein. Við uppgötvum á hverju ári breytingar sem hægt er að lækna af því að viðkomandi kom á réttum tíma.Vertu ekki of sein!Kveðja, starfsfólk H.S.S.