Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mikill áhugi á landnámsskála í Höfnum
Fjölmennt var í sögugungunni í Höfnum þar sem fornleifar frá því fyrir landnám Íslands voru skoðaðar. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 22. júní 2024 kl. 06:07

Mikill áhugi á landnámsskála í Höfnum

Um sextíu manns tóku þátt í sögugöngu í Höfnum þar sem Ármann Guðmundsson, fornleifafræðingur, leiddi gesti um minjasvæðið í Höfnum þar sem skáli frá 9. öld fannst og sagði frá rannsókninni á honum.

Þátttakendur í sögugöngunni höfðu mikinn áhuga viðfangsefninu, búsetu á svæðinu fyrir formlegt landnám og hverra þjóða þetta fólk var.

Skálinn var líklega reistur fyrir þann tíma sem almennt er talið að landið hafi verið numið, og virðist hann hafa verið í notkun fram á 10. öld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Landnámsskálinn fannst við Kirkjuvogskirkju árið 2003 þegar unnið var að fornleifaskráningu í bæjarlandinu. Þegar prufuholur voru gerðar kom í ljós að skálinn gæti ekki verið yngri en frá aldamótunum 900 sem setur hann í flokk meðal elstu byggðarleifa á Íslandi. Jarðvegsmæling á öllu svæðinu sýndi svo fleiri rústir og þykir það sérstaklega áhugavert þar sem ekki hefur verið byggt ofan á rústirnar eins og venja hefur verið. Talið er að íbúarnir hafi búið á staðnum í nokkra áratugi en síðan flutt í burt eða flutt bæjarstæðið til.

Nokkuð ítarlegar rannsóknir hafa farið fram á aldri rústa í Höfnum og einnig hefur verið skoðað hvers eðlis búsetan var. Áhugaverðar tilgátur hafa komið fram til dæmis að ekki sé um venjulegt bændabýli að ræða heldur sé hér að finna könnunarbúðir sem menn nýttu við að kanna landshagi og til að nýta t.d. hvaltennur og rostungatennur sem voru afar verðmætar á þessum tímum. Þegar fornleifarannsóknir hófust árið 2009 kom í ljós að þótt skálinn væri af venjulegri gerð þá vantaði öll útihús sem ávallt fylgja slíkum húsum.

Skálinn hefur verið rannsakaður, árin 2009, 2011 og 2012, auk þess sem könnuð hafa verið svæði þar sem möguleiki er að fleiri rústir finnist. Aðeins hafa fundist óverulegar byggingar en hvert hlutverk þeirra var, er ekki ljós. Þessi skortur á útihúsum hefur vakið upp efasemdir um að skálinn hafi verið bændabýli en mögulega er hér um útstöð að ræða, stað sem menn byggðu sér og nýttu er þeir komu hingað til að nýta og kanna landið.

Áhugasamir gestir í sögugöngunni.