Mikil endurnýjun og öflugt starf í kvenfélaginu í Vogum
Kvenfélagið Fjóla bauð öllum bæjarbúum Voga í afmælisveislu.
Kvenfélagið Fjóla í Vogum fagnaði 90 ára afmæli 5. júlí sl. og af því tilefni buðu félagskonur öllum íbúum Sveitarfélagsins Voga til veislu í Tjarnarsalnum. „Ég er ekki búin að telja nöfnin í gestabókinni en líklega komu 400-500 manns. Ég hef aldrei séð svona margt fólk í Tjarnarsalnum, röðin var út á götu. Þarna voru ekki aðeins bæjarbúar heldur ættingjar þeirra víða að,“ segir Hanna Helgadóttir formaður í samtali við Víkurfréttir.
Kvenfélagið vildi bjóða bæjarbúum til kaffisamsætis til að þakka fyrir veittan stuðning í gegnum tíðina. 52 konur eru skráðir sem félagar, ásamt heiðurskonum, sú yngsta 25 ára. „Elsta sem er enn að koma á fundi og í ferðir með okkur er 83 ára og meðalaldur er í kringum 40 ár. Því hefur endurnýjun verið mjög mikil og það er mjög jákvætt og alls ekki sjálfgefið,“ segir Hanna. Elsa Björnsdóttir var heiðruð og einnig Hrefna Kristjánsdóttir sem var búin að vera formaður í 12 ár, en hún átti ekki heimangegnt í Tjarnarsal þennan dag.
Kvenfélagið Fjóla er, ásamt 9 öðrum kvenfélögum, í Sambandi Gullbringu- og Kjósasýslu. Það er 5. stærsta félagið í því sambandi þrátt fyrir að vera í einu af fámennustu sveitarfélögunum. „Þetta er öflugt félag og við erum mjög duglegar,“ segir Hanna að lokum.