MIKIL ÁBYRGÐ LESTARSTJÓRA
Það er ekki vandalaust að aka á Reykjanesbrautinni. Margs er að gæta. Þegar við veljum okkur aksturshraða verðum við að taka tillit til veðurs, ástands vegar, ástands okkar og ekki síst annarar umferðar. Hvað þýðir þessi frasi „að taka tillit til annarar umferðar“. Það þýðir að ef skilyrði eru þannig að þorri bíla keyrir á minna en hámarkshraða þá gerir þú það líka. Sömuleiðis ef akstursskilyrði eru góð og umferðin keyrir á hámarkshraða þá gerir þú það líka. Þú keyrir ekki á þínum hraða hvað sem tautar og raular. Það veldur mikilli slysahættu þegar aðrir reyna að halda eðlilegum ökuhraða og verða að fara fram úr þér.Fjölmargir ökumenn treysta sér ekki til að aka á „brautinni“ . Það er ekkert til að skammast sín fyrir. Það skiptir líka máli hvort um er að ræða álagstíma eða um helgar. Hvernig ökumaður ert þú? Ert þú einn af þeim sem gleymir þér í akstrinum keyrir á 90 km. hraða aðra stundina en gleymir þér og ert kominn niður í 70 km. þegar þú vaknar við að menn eru að sperrast fram úr þér. Gefur þú þá í til að bæta upp drollið og stefnir þeim sem er að fara fram úr í stórhættu vegna þess að hann kemst ekki fram úr þér á þeim tíma sem hann ætlaði? Vonandi ekki. Það eru hættulegir ökumenn.Þriðja tegund ökumanna eru þeir sem sjá rautt þegar einhver ætlar fram úr og gefa í. Kannski fá þeir samviskubit yfir því að tefja umferðina og auka ferðina í bestu meiningu. Enn þeir eru of margir sem vilja ekki hleypa fram úr og auka þess vegna ferðina. Hvað sem veldur er algjör hending ef bíll heldur óbreyttum hraða eða hægir ferðina þegar þú ætlar fram úr.Á næstu vikum mun ég skrifa niður nokkur bílnúmer ökumanna sem eru til fyrir myndar sem og þeirra sem leika hlutverk smala , lestarstjóra eða draumaprinsa í umferðinni og birta þau.Verum örugg og til fyrirmyndar í umferðinni í sumar .Eigum slysalaust sumar !Jón Gröndal umferðaröryggisfulltrúi.