Miðasala hafin á Með blik í auga
Undirbúningur er nú hafinn á hátíðartónleikum Ljósanætur, Með blik í auga, sem fluttir hafa verið fyrir fullu húsi í Andrews leikhúsinu á Ásbrú undanfarin ár og eru orðnir ómissandi hluti af bæjarhátíðinni.
Í þetta sinn verður farið í öllu óvenjulegra ferðalag um lendur dægurtónlistarinnar og farið út fyrir landsteinana þar sem skoðuð verða þau áhrif sem tilkoma kanaútvarpsins hafði á dægurmenningu landans og ekki síst Suðurnesin.
Dagskráin verður byggð upp með svipuðum hætti og áður. sögur sagðar í bland við góða tónlist en eins og fyrr þá eru það þeir félagar Arnór Vilbergsson, Guðbrandur Einarsson og Kristján Jóhannsson sem fara fyrir vöskum hópi listamanna sem ekki eru af verri endanum. Söngvarar eru Matti Matt, Sverrir Bergmann, Bjarni Ara og Regína Ósk. Þá mun 10 manna hljómsveit sjá til þess að áhrifin skili sér beint til áhorfenda.
Frumsýning verður í Andrews leikhúsinu miðvikudaginn 3. september og tvær sýningar verða haldnar sunnudaginn 7. september. Miðasala er hafin á Miði.is, en miðverð er krónur 4500 fyrstu vikuna en miðaverð mun hækka í 4900 krónur þegar nær dregur.