Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Michael Jackson hefði verið draumaverkefnið
Sunnudagur 4. mars 2012 kl. 17:22

Michael Jackson hefði verið draumaverkefnið



Helena Ósk Ívarsdóttir er 21 árs Keflavíkurmær og eflaust betur þekkt sem mikill sundgarpur. Hún ákvað þó einn daginn að hoppa upp úr sundlauginni, hóf að teikna föt og settist við saumavélina. Þar hefur hún eytt mestum tíma sínum síðan. Hún stundar nú nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja á listnámsbraut og er auk þess að taka viðbótarnám til stúdentsprófs. Hönnun hennar hefur vakið nokkra athygli og hún stefnir á framhaldsnám í fatahönnun erlendis, þá helst í Bandaríkjunum.

Hvenær byrjaði áhugi þinn á fatahönnun?

„Ætli það hafi ekki verið í kringum fermingu þegar ég var á keppnisferðalagi með sundinu. Þá var ein stelpan að lesa tískutímaritið Vogue, ég fékk að kíkja í það og þá var ekki aftur snúið. Síðan þá hef ég fylgst mikið með tísku en byrjaði ekki að sauma sjálf fyrr en ég var 17 ára og rambaði þá í áfanga í FS sem heitir Fata- og textílhönnun.“

Undir hvaða merki hannar þú?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég hef ekki ennþá fundið nafn sem ég er sátt við. Mig langar að finna nafn sem er alþjóðlegt og virkar í tískubransanum erlendis, því auðvitað vil ég enda þar. Ég er búin að máta nokkur nöfn en ekkert hefur fests ennþá.“

Hvaðan færðu innblástur?

„Úff! Eins og er þá er ég mjög hrifin af menningu indíána (kögur, fjaðrir, mynstur, litir o.fl.) og sú menning veitir mér innblástur í möppu sem ég er að fara að senda í skóla erlendis. Gamaldags rokkmenning hefur einnig alltaf veitt mér innblástur sem og hippatímabilið. Ég heillast líka af svokölluðum „kósý“ fatnaði sem er víður og þægilegur og ég sauma mikið þess konar flíkur.“

Hvers konar fatnað finnst þér skemmtilegast að hanna?

„Í dag hanna ég og sauma föt þegar mig vantar eitthvað og bestu flíkurnar mínar eru gerðar tveimur tímum áður en ég fer út. Það er nefnilega oft þannig sem bestu hugmyndirnar verða til. Mér finnst skemmtilegast að sauma víð „kósý“ föt til að vera í dags daglega, en fatasmekkurinn minn einkennist mikið af því.“

Hefur þú tekið þátt í einhverjum tískusýningum?

„Já ég tók þátt í Unglist 2010 með Tækniskólanum. Það var mjög gaman og ég fékk smjörþefinn af því að taka þátt í tískusýningum. Þetta árið var einnig gert mikið úr sýningunni og það voru margir blaðamenn sem mættu. Ein af mínum flíkum endaði í Nude Magazine sem var alveg frábært.“

Hverjir eru uppáhalds fatahönnuðirnir þínir, bæði íslenskir og erlendir?

„Ó þeir eru svo margir. Ég er mjög hrifin af hönnuðum sem eru samkvæmir sjálfum sér og fara ekki eftir því sem á að vera í tísku. John Galliano fyrrverandi hönnuður hjá Dior, Alexander McQueen, Valentino, Betsey Johnson, Coco Chanel, Yves Saint Laurent og margir fleiri. Ungir hönnuðir eins og Jason Wu og Christian Siriano gefa mér ákveðna von því þeim tókst að komast mjög langt þrátt fyrir ungan aldur. Hér heima held ég mikið upp á Munda, Forynju og Aftur. Ég á mér engan einn hönnuð sem fyrirmynd en þeir einstaklingar sem brjóta hefðbundnar reglur og eru samkvæmir sjálfum sér sem og gömlu hönnuðirnir sem voru brautryðjendur í tísku eru mér mikil fyrirmynd.“

Gætirðu hugsað þér að starfa sem fatahönnuður í framtíðinni?

„Já, ekki spurning, það heillar mjög mikið. Ég er með mjög stóra drauma og í huganum er ég komin svo langt fram úr mér að ég þarf oft að stoppa og klára núverandi verkefni. En ég sé ekkert annað en að vinna innan tískubransans, þetta umhverfi heillar mig mikið.“

Ef þú fengir að velja eina manneskju til að hanna flík fyrir, hver yrði fyrir valinu og hvers konar flík yrði það?

„Michael Jackson án efa! Hann var svo mikil týpa og klæðnaðurinn hans var alltaf svo flottur. Ég myndi vilja sauma á hann heilt „look“ fyrir tónleika eða myndband, jakka, buxur, skyrtu, hatt, hanskann og allt sem einkenndi hann. Svo myndi ég einkenna það með mínum stíl. Það væri óskaverkefnið og að fá að vinna með honum hefði verið draumurinn.“

Hvert er framhaldið og framtíðardraumar?

„Framhaldið er að klára stúdentinn núna um jólin. Haustið 2013 ætla ég að vera komin í skóla erlendis, vonandi í Los Angeles ef allt gengur upp. Draumarnir mínir eru óendanlega stórir og ég ætla mér að gera allt til að láta þá rætast. Mig langar að setja fram hönnun sem endar á tískuvikum erlendis, á rauða dreglinum og framan á tískublöðum. Draumurinn er að ná langt í þessum bransa og ég vona að það takist. „Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!“

Ef þú þekkir einhvern sem er að gera sniðuga hluti, endilega láttu okkur vita á [email protected].