Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Metsöluhöfundur í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 21. október 2004 kl. 12:58

Metsöluhöfundur í Reykjanesbæ

Birgitta Jónsdóttir Klasen gaf á dögum út bókina Læknum með höndunum: Nútíma þrýstimeðferð. Bókin er sú fyrsta sem Birgitta sendir frá sér en alls ekki sú síðasta. Þrýstipunktameðferð, eins og sú sem Birgitta fæst við, er framkvæmd með fingrunum þar sem þrýst er á vissa sársaukabletti í líkamanum til að bæta og auka orkuflæði.

Skömmu eftir að bók Birgittu kom út flaug hún upp metsölulistann og var í 6. sæti í flokki vinsælustu handbóka, fræðibóka og ævisagna á tímabilinu 6. október til 12. október í öllum helstu bókabúðum landsins.
 
Birgitta er upprunalega frá Þýskalandi en hefur búið á Íslandi í fjögur ár.
„Ég er mjög stolt af bókinni minni og fólk hefur verið að hringja í mig til þess að þakka mér fyrir bókina því hún hafi hjálpað þeim mikið,“ segir Birgitta sem starfar á Flughótelinu í Reykjanesbæ. Bókin er byggð á 30 ára reynslu Birgittu við náttúrúlækningar en hún var aðeins 6 ára gömul þegar hún hóf að framkvæma svæðameðferðir á fólki.

Þær þrýstipunktameðferðir sem er að finna í bók Birgittu eru sérlega sniðnar að íslenskum veikindum eða öðrum kvillum er teljast algengir hérlendis. T.d. er að finna þrýstipunkta í bókinni sem gott er að nudda gegn nefstíflum. „Fólk á ekki að nota pillur við minniháttar veikindum heldur að finna náttúrulegar leiðir til þess að lækna sig sjálft og þrýstipunktameðferð er árangursrík leið til þess,“ segir Birgitta sem mælir með því að fólk gefi sér tíma til þess að lesa bókina vel og einbeita sér þegar það beitir þrýstipunktameðferðinni, hvert svæði líkamans sem unnið er á þarf ekki nema 5-20 mínútur.

Nú á laugardag mun Birgitta árita bók sína í Bókabúð Keflavíkur/Pennanum milli kl. 11 og 12. „Það er aldrei að vita nema að ég eigi eftir að skrifa barnabók og síðan kannski bók fyrir fullorðna, ég get hvorki sungið né málað en ég get skrifað,“ segir Birgitta að lokum.

VF-mynd/ Jón Björn


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024