Met þátttaka í Jónsmessugöngu í blíðskapar veðri
Met þátttaka var í Jónsmessugöngu Bláa Lónsins og Grindavíkurbæjar síðastliðið laugardagskvöld en talið er að um og yfir þrjú hundruð manns hafi mætt að þessu sinni. Veðrið var eins og best verður á kosið, sól og stilla. Safnast var saman við íþróttahúsið og svo gengið fylktu liði eftir Ingibjargarstíg og upp á Þorbjarnarfell þar sem Eyþór Ingi tónlistarmaður sá um brekkusöng og kveikt var í varðeldi.
Eftir notalega stund á fjallinu var gengið niður norðan megin niður í Selskóg og þaðan eftir Orkustíg í Bláa Lónið þar sem gestir gátu baðað sig fram að miðnætti í þessu frábæra veðri.
Göngustjóri var Þorsteinn Gunnarsson. Björgunarsveitin Þorbjörn sá um öryggisgæslu á svæðinu.
Fleiri myndir hér á vef Grindavíkurbæjar.