Merk tímamót hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum fagnaði tuttugu ára afmæli í húsakynnum MSS í Krossmóa sl. fimmtudag. Einnig var tíu ára afmæli Samvinnu starfsendurhæfingar fagnað. Fjöldi fólks mætti í afmælisfagnaðinn en tímamótanna verður einnig minnst á afmælisárinu með skemmtilegum viðburðum.
Núverandi og fyrrverandi forstöðumenn MSS héldu ræður og minntust upphafsára stofnunarinnar en reksturinn hófst í bakherbergi í húsnæði Fjölbrautaskóla Suðurnesja.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar var fyrsti forstöðumaðurinn og hann sagði í ávarpi sínu að eitt það helsta sem Ólafur Arnbjörnsson, skólameistari Fjölbrautaskólans hefði sagt við sig að nú þyrfti hann að kynna sér internetið. Allir viti sögu þess núna. Guðjónína Sæmundsdóttir, núverandi forstöðumaður sagði að MSS hafi vaxið mikið og starfsemin væri orðið mjög fjölbreytt.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ sagði að verkefnið Samvinna endurhæfing hafi gengið mjög vel en hann fór yfir það í máli sínu. Hugmyndafræði Samvinnu gengur út á að vinna að heilstæðri úrlausn með hindranir þátttakenda á einstaklingsmiðaðan hátt. Samvinna býður upp á fjölbreytt úrræði sem aðstoðar þátttakendur við að bæta heilsu sína og líðan, halda virkni og rútínu, hitta aðra einstaklinga sem eru að vinna með eigin hindranir ásamt því að kynnast vinnumarkaðinum á svæðinu og fá tækifæri til að láta reyna á vinnugetu sína.
Tveir einstaklingar sögðu frá reynslu sinni í afmælisfagnaðinum og lofuðu mjög hjálpina sem þau fengu í sínum erfiðleikum. Þau afhjúpuðu listaverkið „Veruleikakassann“ sem var unnið af þátttakendum Samvinnu starfsendurhæfingar. Þá var annað listaverk afhjúpað en það var „Skrefin“, gert af listamanninum Eyþóri Eyjólfssyni eða Ethorio en verkið var unnið út frá upplifun nemenda MSS.
Sönghópurinn Vox Felix söng og Eyþór Ingi Gunnlaugsson skemmti gestum og starfsmönnum MSS.
Vox Felix söng fyrir afmælisgesti.
Kristín María Birgisdóttir, bæjarfulltrúi í Grindavík og formaður stjórnar MSS var veislustjóri.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, flutti ræðu.
Starfsmenn MSS.
Listaverkið Veruleikakassinn var afhjúpað.
Starfsfólk MSS ásamt Kristínu Maríu Birgisdóttur (miðja).
Guðjónía Sæmundsdóttir, forstöðumaður MSS með Skúla Thoroddsen, fyrrverandi forstöðumanni.
Starfsfólk MSS skemmti sér konunglega í afmælisveislunni.