Menntun Suðurnesjamanna
Á Suðurnesjum er hlutfall íbúa með háskólapróf undir landsmeðaltali en hlutfall karla með iðnmenntun er hærra en landsmeðaltal. Á Suðurnesjum er aðeins hærra hlutfall kvenna með stúdentspróf sem hæstu prófgráðu og áberandi hærra hlutfall íbúa sem aðeins hafa lokið grunnskólanámi eða minna.
37% karla á Suðurnesjum hafa einungis lokið grunnskólaprófi eða minna. Það er það mesta á landinu en næst kemur Austurland með 35%. Aðeins 6% karla á Suðurnesjum hafa lokið stúdentsprófi sem er lægsta hlutfall landsins en landsmeðaltal er 14%.
23% kvenna á Suðurnesjum hafa lokið stúdentsprófi en það er hæsta hlutfall landsins.
Hér má sjá töflu með frekari tölfræði upplýsingum.
Byggðastofnun fékk fyrirtækið Capacent til að taka saman úr gögnum sínum tölur um menntun fólks eftir landshlutum. Capacent spyr í ýmsum könnunum sínum um menntun og því telst upplýsingagrunnurinn vera marktækur þó þurft hafi að fara aftur til 2011 til þess að fá marktækt úrtak. Niðurstöður sýna markverðan mun á milli landshluta. Aldrei áðar hafa þessar upplýsingar verið teknar saman.
Landshlutasamtök sveitarfélaga undirbúa nú gerð sóknaráætlana fyrir landshlutana. Á Byggðastofnun er m.a. unnið að greiningu á upphafsstöðu í landshlutunum í nokkrum mikilvægum samfélagsþáttum. Einn þessara þátta er menntun íbúa sem þykir gefa vísbendingu um forsendu fyrir nýsköpun og samkeppnishæfni svæðis.