Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarráð Suðurnesja styrkir 34 verkefni
Laugardagur 18. desember 2010 kl. 10:13

Menningarráð Suðurnesja styrkir 34 verkefni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Menningarráð Suðurnesja úthlutaði í gær styrkjum til 34 menningarverkefna á Suðurnesjum, samtals að upphæð 15 milljónir króna. Hæstu styrkir námu 1 milljón króna en lægsti styrkurinn var 75 þúsund krónur. Alls bárust menningarráðinu 70 styrkumsóknir í þetta skipti og er það talsverð fækkun frá því að síðast var úthlutað, en þá bárust 105 umsóknir.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum undirrituðu 11. júní 2010 samning við menntamála-ráðherra og iðnaðarráðherra um samstarf ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum um menningarmál. Tilgangur samningsins er að efla menningarstarf á Suðurnesjum og beina stuðningi ríkis og sveitarfélaga á Suðurnesjum við slíkt starf í einn farveg.

Þetta er fjórða úthlutun Menningarráðs Suðurnesja en það er skipað fulltrúum allra sveitarfélaganna fimm.

Af umsóknum og úthlutunum má ráða að menningarstarf á Suðurnesjum er blómlegt og víða að finna kraftmikla nýsköpun, hvort heldur er á sviði lista eða menningartengdrar ferðaþjónustu. Samstarfsverkefnum sveitarfélaganna fjölgar ekki, en þau sem halda áfram hafa fest sig í sessi og hafa mikið menningarlegt gildi fyrir Suðurnes auk þess sem þau hafa vakið athygli langt út fyrir Suðurnes.

Úthlutunin fór fram við hátíðlega athöfn í Víkingaheimum í Reykjanesbæ að viðstöddum styrkþegum og fjölda annarra gesta.

Myndin að ofan er af styrkþegum eða fulltrúum þeirra í Víkingaheimum í gær. VF-mynd/Sölvi Logason.


Eftirfarandi verkefni hljóta styrki:

1.000.000 Fornleifarannsókn í Höfnum
Mikilvæg fornleifarannsókn fyrir öll Suðurnes við Kirkjuvogskirkju í Höfnum. Eins og við fyrri rannsóknir er gert ráð fyrir að sýna jarðfundna muni í Víkingaheimum. Byggðasafn Reykjanesbæjar.

1.000.000 Safnahelgi á Suðurnesjum
Sameiginleg kynning á söfnum, setrum og sýningum sem eru í boði á Suðurnesjum. Verkefnið á sér stað utan hefðbundins ferðamannatíma. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum.


1.000.000 List án landamæra á Suðurnesjum
Listahátíð sem haldin er einu sinni á ári með þátttöku fatlaðra og ófatlaðra listamanna, einstaklinga og hópa. Sveitarfélögin á Suðurnesjum verða nú með í þriðja sinn. Þau tvö skipti sem sveitarfélögin á Suðurnesjum hafa tekið þátt í verkefninu, hefur það heppnast mjög vel og vakið verðskuldaða athygli. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum.

800.000 Töfraheimur óperunnar „Vasaóperan“
Fernir tónleikar þar sem tekin verður fyrir ein ópera eða eitt tónskáld í einu. Verkefnið er hugsað til að kynna töfraheima óperunnar almenningi á skemmtilegan og lifandi hátt. Norðuróp/Jóhann Smári Sævarsson.

700.000 Ferskir vindar í Garði - Norðurljósaverkefnið
Alþjóðlegur listviðburður. Listamenn af mörgum þjóðernum koma í Garðinn til að kynnast land og þjóð, verða fyrir áhrifum náttúrunnar og samfélagsins og skilja eftir sig spor í formi sköpunar. Sveitarfélagið Garður.

600.000 Fimm listsýningar ársins 2010
Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum. Listamenn sem sýna í safninu eru allir atvinnumenn. Hver listamaður býður upp á leiðsögn um sýninguna og skólaheimsóknir eru í höndum safnakennara. Listasafn Reykjanesbæjar.

600.000 Rokkstokk 2011
Hljómsveita- og tónlistarkeppni fyrir ungt fólk á aldrinum 13 – 25 ára. Allar félagsmiðstöðvar á Suðurnesjum koma að verkefninu. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum.

500.000 Suðusuðvestur, sýningarárið 20100
Vettvangur fyrir myndlistafólk sem vinnu að listsköpun á rannsakandi hátt. Níu sýningar á árinu 2011. Inga Þórey Jóhannsdóttir.

500.000 Ljósmyndasafn Grindavíkur / ÓRÞ
Vinna myndir Ólafs Rúnars Þorvarðarsonar inn á Ljósmyndavef Grindavíkur. Myndir af fólki, atvinnu- og mannlífi í Grindavík allt frá 5. áratug síðustu aldar og fram undir lok hennar. Bókasafn Grindavíkur/Ljósmyndasafn Grindavíkur.

500.000 Fjölnota upplýsingaskilti við Fræðasetrið/Háskólasetrið í Sandgerði
Upplýsingar um þá fugla sem halds til í fjörunni og á sjónum í næsta nágrenni. Jafnframt verða veittar upplýsingar um nýlegar rannsóknir og flækinga. Háskólasetur Suðurnesja í Sandgerði/Fræðasetrið.

500.000 Baðstofudagar og Sagnanótt á Suðurnesjum
Staðardagskrár í sveitarfélögunum fimm, þar sem frásagnarlist hverskonar er dregin fram í dagsljósið. Fimm sveitarfélög á Suðurnesjum .

500.000 Litla gjörningahátíðin í Vogum
Alþjóðleg gjörningahátíð, innspýting í lista- og mannlíf í sveitarfélaginu Vogum sem og á Suðurnesjum. Sveitarfélagið Vogar og Menningarverkefnið Hlaðan.

500.000 Ferðasaga Guðríðar
Leikhús Víkingaheima, einleikur um Guðríði Þorbjarnardóttur. Leiksýning stytt og flutt á erlendum tungumálum. Víkingaheimar.

475.000 Októberfest í Sandgerði
Hugmyndin er að tengja saman íslenska og þýska menningu. Ætlunin er að nýta þá miklu athygli sem bókahátíðin í Frankfurt mun vekja á Íslandi og íslenskri menningu. Sandgerðisbær.

475.000 Listahátíð barna
Sameiginleg listahátíð allra leikskóla og grunnskóla í Reykjanesbæ og Listasafns Reykjanesbæjar undir formerkjum Listasafnsins. Menningarsvið Reykjanesbæjar, leik- og grunnskólar.

400.000 Nálarhnýting Reynis (Vattasaumur)
Þróun Vattasaumshnúta útfrá aðferð sem notuð var hér á landi og á meginlandi Evrópu á Miðöldum. Miðlun til almennings með kennsluefni, fyrirlestrum og sýningarhaldi. Reynir Katrínarson.

400.000 Fræðsluþættir um gönguleiðir á Reykjanesskaga
Fræðsluþættir þar sem áhugaverðum gönguleiðum á Reykjanesskaga er lýst á lifandi hátt í fylgd leiðsögumanns. Efnið verði aðgengilegt almenningi á vefnum.

400.000 U2messa: tónlist eftir hljómsveitina U2 í kirkjum
Messan verður flutt í kirkjum á Suðurnesjum og kirkjum á höfuðborgarsvæðinu. Kór Keflavíkurkirkju.

400.000 Lífríki tjarna á Rosmhvalanesi. Sýning í Fræðasetrinu í Sandgerði.
Fjörur og tjarnir á Rosmhvalanesi, frá Stafnesi að Rafnkelsstaðabergi. Lögð verður áhersla á að sýna hið smásækja líf tjarnanna sem flestum er hulið. Náttúrustofa Reykjaness.

400.000 Kinosmiðja 16mm kvikmyndanámskeið í Hlöðunni
Námskeið fyrir börn og 16 ára og eldri. Námskeiðinu lýkur með sýningu í Kínóklúbbnum og í Hlöðunni á öllum þeim kvikmyndum sem unnar verða á námskeiðinu. Kinosmiðja.

400.000 Stafræn afritun á Faxa fyrir vefinn tímarit.is
Blaðið hefur komið út í 70 ár. Áhugi er fyrir því að öll útgáfan verður afrituð stafrænt og sett á vefinn tímarit.is. Mánaðarblaðið Faxi.

400.000 Kynning og heimildarsöfnun um líf sjómanna á 20. öld.
Sýningin Bátasafn Gríms Karlssonar telur nú um 100 bátalíkön og fer sífellt stækkandi.Nú er ætlunin að gera sögu sjómennskunnar á Íslandi skil á persónulegan hátt. Söfnun heimilda, viðtöl við sjómenn og fjölskyldur þeirra. Bátasafn Gríms Karlssonar í Duushúsum.

300.000 Jólabærinn Grindavík
Menningartengdir viðburði í desember. Útgáfa á kynningarritinu Jólabærinn Grindavík. Grindavík Experience.

300.000 Frá veiðum til markaðar – ljósmyndasýning
Farandsýning sem byrjar á sjómannadaginn í Grindavík síðan í Reykjanesbæ og ferðast síðan víða um landið. Jafnvel alla leið til Barcelóna á Spáni. Með þessari ljósmyndasýningu er fiskveiðum, vinnslu og sölu á saltfiski gerð skil. Kristinn Benediktsson.

300.000 Menningar- og sögutengd gönguhátíð í Grindavík um verslunarmannahelgina
Fjórar göngur frá föstudegi til mánudags. Verkefnið sameinar útivist, holla og góða hreyfingu við fræðslu á menningu landssvæðisins. Grindavíkurbær.

250.000 Samspilstónleikar tónlistarskólanna á Suðurnesjum
Tilgangurinn er að gefa nemendum í ákveðnum hljóðfæraflokkum tækifæri til að leika saman í stórum hópum innan síns hljóðfæraflokks. Tónlistarskólarnir á Suðurnesjum.

225.000 Sjólyst í Garði
Húsið verður gert eins og það var þegar Una Guðmundsdóttir bjó þar. Húsið verður notað í kvikmynd sem er í vinnslu um Unu. Sjólist verður minjasafn að kvikmyndatöku lokinni. Steinbogi kvikmyndagerð ehf.


200.000 Kynslóðatorg í Keflavíkurkirkju
Verkefnið miðar að því að stefna fulltrúum ólíkra kynslóða saman í kirkjunni til að vinna að skapandi verkefnum á sviði myndlistar og tónlistar. Verkin sýnd í opnu húsi í kirkjunni. Keflavíkurkirkja.

200.000 Dúkka
Verkefnið tengist sýningu sem opnuð verður á ljósanótt í Listasafni Reykjanesbæjar. Verkið fjallar um konur í nútímasamfélagi. Valgerður Guðlaugsdóttir.

200.000 Skráning og útgáfa á 80 ára sögu Slysavarnadeildar Þorbjörns í Grindavík
Frækileg saga Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns verður rituð og útgefin vegna þessara tímamóta, 80 ára afmælis 2. nóvember sl.

200.000 Uppgerð á Jamestown akkeri í Höfum
Akkeri úr seglskipinu Jamestown sem strandaði árið 1881. Akkerið er staðsett fyrir utan kotvogskirkju í Höfnum. Umhverfissamtökin Blái herinn.

150.000 Bókmenntakvöld
Erlingskvöld. Kynning á einum rithöfundi, fræðileg umfjöllun og upplestur úr verkum hans. Bókakonfekt. Fjórir rithöfundar lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.

150.000 Aftan festival - tónleikaröð
Ráðgert að halda þrjá tónleika á árinu. Vettvangur grasrótartónlistarmanna til að koma fram og miðla tónlist sinni. Hlynur Þór Valsson.

75.000 Eftirfylgni við ferska vinda í Garði og námskeið í framhaldi af heimsókn listamanna.
Námskeiðshald fyrir börn og unglinga til að fylgja eftir þeim viðburði sem Ferskir vindar í Garði koma til með að verða. Lista- og menningarfélagið í Garði.