Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menningarhús fyrir Grindvíkinga í Kvikunni
Frá leiklistarsmiðju í Kvikunni.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 12. mars 2022 kl. 13:22

Menningarhús fyrir Grindvíkinga í Kvikunni

„Kvikan er að breytast í meira menningarhús fyrir íbúa. Í gegnum tíðina hefur verið hérna Saltfisksetur Íslands og við höfum verið meira ferðamannastopp. Núna höfum við rýmt stóra sýningarsalinn þar sem saltfisksýningin var og höfum breytt honum í fjölnota viðburðasal og erum að byggja upp dagskrá fyrir íbúa þar,“ segir Sunna J. Sigurðardóttir, verkefnastjóri framtíðarþróunar Kvikunnar, í samtali við Víkurfréttir.

„Við erum að vonast til að hér komi ýmsir skemmtikraftar og listamenn og skelli sér á sviðið. Við erum með stórt svið, tuttugu fermetra svið og tvö hundruð sæti, jafnvel tvö hundruð og fimmtíu, þannig að það eru ýmsir möguleikar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Breytingar á Kvikunni hófust fyrir um tveimur árum síðan en síðan þá hefur verið heimsfaraldur kórónu-veiru og breytingarnar gengið á misjöfnum hraða.

„Ég myndi segja að Kvikan sé farin að stimpla sig inn í hugum bæjarbúa sem þeirra hús í dag, menningarhús okkar bæjarbúa,“ segir Sunna.

Ýmsir vikulegir viðburðir

Þegar útsendarar Víkurfrétta heimsóttu Kvikuna fyrir síðustu helgi voru þar nemendur úr Grunnskóla Grindavíkur á leiklistarnámskeiði. Sunna segir blaðamönnum frá því að nokkrum sinnum hafi verið settar upp smiðjur í Kvikunni þegar starfsdagar séu í grunnskólanum. Að þessu sinni væri leiklistarsmiðja, þar sem tveir leiðbeinendur voru með um 40 krökkum á grunnskólaaldri sem skelltu sér á svið að prófa.

Er markmið að auka virkni bæjarbúa í húsinu?

„Já, algjörlega. Við erum komin með ýmsa vikulega viðburði. Við erum með kaffi fyrir eldri borgara á miðvikudögum klukkan tíu. Hér eru foreldramorgnar á föstudögum klukkan ellefu og smiðjur fyrir krakka á fimmtudögum klukkan tvö. Svo vefur þetta utan á sig og við reynum að hafa einn opinn menningarviðburð í viku á miðvikudögum og vonandi bætist svo bara ennþá meira í.“

Þó Grindvíkingar séu þekktir fyrir sjósókn, þá hefur alltaf verið hérna ríkt menningar- og íþróttalíf.

„Já og við finnum að fólk hefur mikinn áhuga og ekki síst núna í Covid. Fólk vill gera eitthvað skemmtilegt saman hér í Grindavík en ekkert endilega fara eitthvað annað til að sækja menningu. Fólk vill hittast í bænum. Við erum komin með þennan fína sal og nú vantar okkur bara leiksýningar og skemmtiatriði eða í raun hvað sem er. Við erum opin fyrir öllu ef fólk hefur hugmyndir fyrir því sem má skella upp hérna, þá bara endilega heyra í okkur.“

Meiri tækifæri að loknum heimsfaraldri

Og það eru tækifæri framundan, ef heimsfaraldri er að ljúka.

„Heldur betur og vonandi getum við haldið áfram með barnadagskrá og dagskrá fyrir eldri borgara og almenna dagskrá fyrir íbúana í bænum.“

Saltfisksetur Íslands hefur verið flutt upp á aðra hæð í Kvikunni og þar fer nokkuð vel um safnið og Sunna segist mjög ánægð með hvernig sýningin kemur út. Sýningarhönnuðurinn hafi verið fenginn að borðinu þegar sýningin var flutt um hæð. Rýmið er minna en sýningin nýtur sín mjög vel.

Annar stór viðburður mun einnig fá sitt rými í Kvikunni. Eldgosið í Fagradalsfjalli, sem hófst 19. mars í fyrra, mun fá sína gestastofu í húsinu í samstarfi við Reykjanes jarðvang og það verður að sögn Sunnu á allra næstu mánuðum.

„Í Kvikunni verður áfram hægt að sækja upplýsingar fyrir ferðamenn og koma á safn þó svo fókusinn í húsinu hafi verið færður heim til að sinna íbúum bæjarins betur.“ Þá er verið að vinna að því að setja upp Guðbergsstofu aftur í húsinu í breyttri mynd og hún verður meira áberandi þegar gengið er inn í húsið.

Kvikan er opin alla daga nema sunnudaga frá klukkan ellefu árdegis til fimm síðdegis og aðgangur að Saltfisksetrinu er ókeypis og því tilvalið að gera sér ferð með fjölskylduna til Grindavíkur. Saltfisksetrið er sýning sem sýnir mikilvægan hlekk í sögu þjóðarinnar og þá ekki síst Grindavíkur, sem hefur í gegnum árin verið stór framleiðandi á saltfiski á Íslandi, þó svo breytingar séu að verða í vinnslu á fiski nú hin síðari ár.

Sunna J. Sigurðardóttir.

Sýning Saltfiskseturs Íslands er á 2. hæð Kvikunnar.