Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Menning er mannsins gaman í Grindavík
Föstudagur 20. mars 2009 kl. 09:32

Menning er mannsins gaman í Grindavík

Í fyrsta skipti í sögu Grindavíkur verður haldin menningarvika undir yfirskriftinni Menning er mannsins gaman sem stendur vikuna 21. til 28. mars nk. Lagt er upp með að virkja sem flesta Grindvíkinga sem með einum eða öðrum hætti koma að  menningu hvaða nafni sem hún nefnist og reynt  að höfða til allra aldurshópa. Fjölmargir Grindvíkingar eru í myndlist, tónlist og  ýmis konar handverki í sínum frístundum og er verið að draga þá fram í dagsljósið."

Óhætt er að segja að dagskráin sé afar fjölbreytt og fyrir allan aldur en formleg opnun verður í Saltfisksetrinu laugardaginn 21. mars kl. 14:00. Þar verður opnuð samsýning  grindvískra frístundamálara og handverkssýning. Síðan rekur hver viðburðurinn annan í Kvennó, Flagghúsinu, Grindavíkurkirkju og á fleiri stöðum í bænum. Meðal viðburða má nefna Kaldalónskvöld, kaffihúsakvöld, Grindvíska atvinnuleikhúsið (Bergur Ingólfsson og Víðir Guðmundsson), ljósmyndasýning barna, ljóðasýning, fjöltefli, frumsýning á árshátíðarleikriti grunnskólans, þjóðháttakynning, Rokksuð, Kútmagakvöld, kvennakvöld hjá körfunni, tónleikar í kirkjunni, vígsla fjölnota íþróttahúss og þá koma rithöfundarnir Guðbergur Bergsson og Einar Már og mun sá síðarnefndi fjalla um verk Guðbergs. Bæjarfulltrúar  mæta hver á fætur öðrum í pottaspjall í sundlauginni og spjalla við gesti um málefni líðandi stundar.

 „Við rennum svolítið blint í sjóinn með þetta. Með því að virkja heimamenn líkt og við erum að gera þá höfum við fulla trú á því að þetta eigi eftir að verða viðburðarrík vika og Grindvíkingar verði virkir.  Okkar markmið er líka að byrja ekki of stórt með svona viðburð heldur byrja með eitthvað sem við ráðum auðveldlega við og byggja svo ofan á það að ári því markmiðið er að gera þetta að árlegum viðburði. Ég hvet alla Grindvíkinga til að kynna sér dagskrána vel þegar hún kemur í hús og vera svo duglegir að taka þátt . 

Að gera sér glaðan dag og fara út á meðal fólks skiptir miklu máli og samfélagið verður bæði líflegra og skemmtilegra eftir því sem fleiri taka þátt,“ segir Kristinn Reimarsson, frístunda- og menningarfulltrúi Grindavíkurbæjar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024