Meiri tími fyrir golf, lestur og ræktina
Bæjarstjórinn í Garði ánægður eftir að hafa búið þar í rúmt hálft ár.
Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, flutti þangað í september sl., eftir að hafa ekið daglega til og frá Árbæjarhverfi í Reykjavík síðan á vordögum 2012. „Okkur líkar mjög vel að búa í Garði. Við erum landsbyggðarfólk og okkur líður vel í kyrrðinni og rólegheitunum. Það fer vel um okkur og við höfum ekki yfir neinu að kvarta, þvert á móti,“ segir Magnús í samtali við Víkurfréttir.
Beðinn um að bera saman Garð og aðra staði sem hann hefur búið á segir hann hvern stað hafa sín einkenni og því sé ekki alveg auðvelt að lýsa samanburði á einfaldan hátt. „Það að búa í Garðinum í samanburði við aðra staði á landsbyggðinni sem við þekkjum er mjög gott. Okkar samanburður er fyrst og fremst við Ólafsvík, þaðan sem við erum og Grundarfjörð, þar sem við bjuggum um fimm ára skeið þegar ég var sveitarstjóri þar. Það er ýmislegt sem er betra hér en þar og síðan öfugt, en í það heila tekið er gott að búa í Garðinum.“
Væri til í meiri gestagang
Það sem hinir staðirnir hafa umfram Garðinn segir Magnús helst vera að þar eigi fólkið hans fjölskyldur sína og marga vini, sem hafi auðvitað sitt að segja. „Ættingjar og vinir hafa litið við hjá okkur. Börnin okkar og þeirra sambýlisfólk koma reglulega og ekki má gleyma litlu afa- og ömmustelpunni okkar, sem fær stundum að koma með afa og ömmu í heimsókn í Garðinn þar sem henni líður vel að vera og finnst mikið sport. Þá höfum við fengið gesti sem gista hjá okkur áður en farið er í flug erlendis snemma morguns, það þykir þeim þægilegt. Það verður þó að viðurkennast að við værum alveg til í að upplifa meiri gestagang, en það mun örugglega verða þegar vorið og sumarið kemur.“
Afa- og ömmustelpan Rebekka Ísis í fjöruferð með ömmu sinni, Sigrúnu Drífu Óttarsdóttur.
Núna vinnur eiginkonan í Reykjavík
Meðal kosta við Garðinn segir Magnús m.a. að stutt sé að skreppa í höfuðborgina og öll þjónusta innan seilingar. „Svo er auðvitað þægilegt að skrifstofan mín er örstutt frá heimilinu, þannig að það er mikil breyting. Það er einnig allt mun auðveldara varðandi starfið sjálft, bæði beint og óbeint og á allan hátt mun betra að búa í Garðinum heldur en að vera búsettur annars staðar.“ Þá hefur hann tekið upp nánast daglegar venjur að mæta í nýju og glæsilegu líkamsrækt Garðbúa og stundar þar æfingar til styrkingar og heilsubótar. Þá hefur orðið sú breyting á að eiginkonan starfar í Reykjavík og nú hefur komið í hennar hlut að sækja sína vinnu frá Garðinum til Reykjavíkur. „Hún keyrir að vísu ekki alltaf alla daga, dóttir okkar ásamt sambýlismanni og afastelpunni minni búa í húsinu okkar í Reykjavík og eiginkonan dvelur þar stundum eina og eina nótt. Svona geta hlutirnir snúist við,“ segir Magnús.
Tveir góðir golfvellir í næsta nágrenni
Magnús segist svo ofan á allt, með því að öðlast aukatíma sem áður fór í bílferðir, séu vinnudagarnir lengri á skrifstofunni í stað þess að fara fram á netinu og með hjálp tölvutækninnar. „ Að öðru leyti hefur tíminn í líkamsræktinni bæst við, auk þess sem ég nota tímann til lestrar og alls konar pælinga í ýmsum málum. Í sumar ætla ég að nota tímann til að spila golf, enda tveir góðir golfvellir í næsta nágrenni.“