Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Með hjartað í buxunum
Laugardagur 3. mars 2012 kl. 08:19

Með hjartað í buxunum

Lífið er hverfult og oftar en ekki erum við áminnt á hverfulleik þess þegar síst skyldi. Áminningin vekur flesta til þess að huga betur að eigin heilsu en þegar allt er um liðið og daglegt amstur kemst í eðlilegt horf, gleymist loforðið og það fjarar út. Af og til man maður þó eftir því, að eitthvað hafi staðið til að gera í eigin málum en sjálfið segir á morgun. Ég hafði lofað mér því fyrir stuttu að láta kíkja á dæluna, sem öllu heldur gangandi og lét loks verða af því. Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengir í ættinni, kransæðasjúkdómar í báða leggi og því betra að láta líta á sig. Best að panta tíma hjá Hjartavernd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég hugsaði á leiðinni að fólkið hlyti að halda að ég væri manískur, svo stutt fannst mér frá síðustu skoðun. Þau höfðu reyndar flutt sig um set í millitíðinni og ég spurði hvenær það hefði gerst. Snaggaraleg hjúkka, sem komin var fram yfir miðjan aldur, kvik í hreyfingum og hýr á brá, tjáði mér að þau hefðu flutt fyrir tíu árum! Hjartað sló örar við þessar nýju upplýsingar. Mér fannst ég hafa skrópað í tíma og kennarinn beið með prikið handan við hornið. „Góði besti, árin líða svo hratt þessa dagana að maður tekur varla eftir því“ sagði hún hæglát um leið og hún klessti mælahnöppum á mig um alla bringu. Hjartalínuritið fékk ég ekki að sjá en púkinn í mér gægðist í umslagið á meðan sú stutta leit undan. Það virtist eðlilegt en hvað vissi ég.

Mér leið einkennilega í bláum sloppi frammi á biðstofu, innan um aðra greifa í alveg eins sloppum. Ég fletti í eldgömlu Nýju lífi og var vart búinn að lesa kaflann um tíu ráð til að fatta feikaðar fullnægingar kvenna, þegar önnur dúkka, fyrirgefið hjúkka, kallaði mig inn til sín. Sú mældi, pældi og spurði mig spjörunum úr í orðsins fyllstu merkingu. Gott að ég var ekki látinn berrassaður þylja átta sinnum margföldunartöfluna fyrir skrópið. Hún var heldur ekki jafn klár í blóðprufunni og Gunna á Heilsó heima.

Niðurstöður munu liggja fyrir eftir þrjár vikur. Blóðfita, blóðþrýstingur, blóðsykur, líkamsþyngd og hreyfing verða á matseðli matsmannsins í hvíta sloppnum. Þangað til verður allt kapp lagt á að huga betur að sjálfinu enda genatíkin væntanlega í eftirrétt.