Með barnið sofandi í aftursætinu
„Það sem stendur upp úr frá blaðamannsárum mínum á Víkurfréttum eru engar stórfréttir – þótt mér hafi fundist á þeim tíma sem ég væri að skrifa fyrir The Guardian - heldur hversu fjölbreytt verkefnin þar gátu verið. Eina stundina var ég í eltingarleik við þyrlu sem var við björgunaraðgerðir, með barnið mitt sofandi í aftursætinu, eða brunandi í Sandgerði til að mynda hval sem hafði villst inn í höfnina. Þess á milli tók ég viðtöl við presta, hetjur, börn og töffara. Eftirminnilegt er viðtal við eilífðarrokkarann og gæðablóðið Rúnar Júlíusson ásamt Arlo Guthrie en sá hafði stoppað stutt við í Keflavík á leið sinni yfir hafið – ekki þó á mótorhjólinu,“ segir Dagný Gísladóttir kynningarstjóri Reykjanesbæjar. Hún var blaðamaður á Víkur-fréttum á árunum 1996 til 98.
„Eitt sinn tók ég mynd af prestinum í Útskálakirkju með viðtali í jólablaðið og mér til mikillar hrellingar reyndist myndin ónothæf þar sem hún var svo dökk að ætla mætti að þar færi sjálfur myrkrahöfðinginn. Þá voru góð ráð dýr, blaðið á leið í prentun þá um kvöldið. En fréttastjórinn var ekki lengi að bjarga því, skellti inn fallegum heilögum anda á bak við prestinn og þannig var myndin birt“.
Hvað er minnisstætt frá árinu sem er að líða?
„Það má segja að árið 2010 hafi verið skrifað í hástöfum enda erfiðleikar margir sem steðja að þessu byggðarlagi.
Fréttir bárust af því að hér væri námsárangur slakur, menntunarstig lágt, mikill fjöldi öryrkja og síðast en ekki síst atvinnuleysi mest á landinu öllu. Við héldum marga borgarafundi, mótmæltum og vorum reið.
En að sama skapi megum við ekki gleyma því að í þessu samfélagi hefur alltaf búið mikill sköpunarkraftur. Hér er svo dæmi sé tekið árangur í íþróttum langt yfir meðallagi og gerjun í tónlistarlífi hvergi meiri. Við ættum að fagna þessari sérstöðu okkar og skapa úr henni tækifæri.
Því fönguðu jákvæðu fréttirnar mig miklu fremur á þessu ári s.s. mikil ásókn í framhaldsnám hjá Keili og Miðstöð símenntunar, mikill árangur í forvörnum ungmenna, skemmtilegir ungir hönnuðir, flottir tenórar, bassar og sóprönur í einu besta tónlistarhúsi landsins, mikil gróska í leiðsögn og ferðaþjónustu og kraftmiklir einstaklingar sem vinna að sínum hugðarefnum og í þágu samfélagsins.
Tónlistarverksmiðjan Geimsteinn framleiddi vel þetta árið; Valdimar, Klassart og Lifun og ekki má gleyma jólaplötu Sigurðar Guðmundssonar eða Baggalúts, hans Kidda „okkar“.
Eftirminnileg er bólusetningin gegn svínaflensunni í Íþróttaakademíunni en þar fannst mér ég skyndilega vera staðsett í bandarískri hamfaramynd. Þar var þó enginn Bruce Willis – en strákarnir hjá BS komust mjög nálægt því.
Ekki má gleyma því að Massi varð Íslandsmeistari í kraftlyftingum árið 2010 en þar er ég dyggur félagi. Hef þó enn ekki náð lágmarki í bekkpressu.
Besta fréttin 2010 er án efa jólatréð sem fannst á Miðnesheiði engum til gagns þar til góður maður gróðursetti það í moldarbarð þar sem það nú trónir í 8 metrum 25 árum síðar. Mér finnst það táknrænt, það hafði einhver trú á þessu jólatréi og það kom á óvart - við getum þetta með seiglunni Suðurnesjamenn,“ segir Dagný Gísladóttir.