Með barnavernd á bakinu í aðdraganda eldgoss
Móðir í Grindavík ósátt við vinnubrögð barnaverndar. Segir bæjarstjórn ósamstíga og búna að afsala sér völdum eftir stofnun framkvæmdanefndar.
„Ég tel mig ágætlega vel gefna og treysti mér fullkomlega til að meta öryggi barnanna minna,“ segir Grindvíkingurinn Gréta Dögg Hjálmarsdóttir en hún lenti í þeirri leiðinlegu reynslu að barnavernd taldi sig þurfa hafa afskipti af börnum hennar þar sem ekki þótti öruggt að vera með börn í Grindavík í aðdraganda síðasta eldgoss. Fjölskyldan gafst að lokum upp og hefur fest kaup á húsnæði í Reykjanesbæ.
Gréta Dögg var búin að missa tölu á öllum þeim skiptum sem fjölskyldan þurfti að flytja en við eldgosið um miðjan janúar þegar hraun tók þrjú hús, breyttist hugsunarhátturinn og fjölskyldan taldi sig þurfa koma sér fyrir til lengri tíma og gerði þriggja mánaða leigusamning við Bríeti og Vogar urðu dvalarstaðurinn. Eftir erfiðan tíma fram að þessu tók ekki betra við, Gréta og fjölskylda fundu sig aldrei almennilega í Vogum og hugurinn leitaði sífellt til Grindavíkur. Að leigutímanum loknum tók fjölskyldan einfalda ákvörðun.
Ekki hrædd
„Við fluttum heim um miðjan maí en þá var næsta eldgos yfirvofandi. Við hugsuðum með okkur að það yrði bara eitt í viðbót og svo yrði þetta búið. Gosið kom svo á besta tíma, allir voru farnir til skóla og vinnu og sem betur fer voru yfirvöld búin að slaka á og Grindvíkingum var hleypt aftur heim til sín tveimur sólarhringum seinna. Ég mun aldrei gleyma gleði barnanna minna við að flytja aftur heim til Grindavíkur eftir síðustu mánuði í rótleysi með hluta af dótinu okkar í ferðatöskum, þau hreinlega ljómuðu og við Magni Emilsson, eiginmaður minn, vorum sömuleiðis afskaplega glöð að vera komin heim til okkar því þetta snýst kannski mest um það, að vera heima hjá sér. Það er yndislegt fólk sem býr í Vogum en okkur leið aldrei eins og við værum heima hjá okkur og því tókum við þá ákvörðun að flytja heim, að mjög vel athuguðu máli. Þarna var búið að jarðvegsskanna allan bæinn og búið að gefa út að vesturhlutinn væri allur meira og minna í lagi, við búum í þeim hluta. Þau svæði sem voru talin hættuleg var búið að girða af í bak og fyrir svo okkur eða börnunum okkar var engin hætta búin. Börnin okkar eru þrettán ára stelpa og níu ára sonur, við lögðum þeim lífsreglurnar og treystum þeim fullkomlega að fara eftir því sem við sögðum þeim, við höfðum ekki áhyggjur af þeim í eina einustu sekúndu og sumarið var æðislegt hjá okkur heima í Grindavík. Að hugsa sér, það þurfti ekki meira til að gleðja þessa fjölskyldu en bara að fá að vera heima hjá sér. Það er kannski gott að það komi skýrt fram að börnin mín voru alls ekkert hrædd við þetta, þegar mestu jarðskjálftarnir voru í gangi fyrir fyrri rýminguna þá fannst þeim það bara skemmtilegt, við reyndum einfaldlega að setja þetta upp á skemmtilegan máta, kölluðum þetta jarðskjálftabingó, ef jarðskjálfti færi yfir x tölu þá yrði farið í bíó eða gert eitthvað skemmtilegt. Börnin höfðu engar áhyggjur af því að eldgos myndi koma upp í Grindavík og sonur minn dýrkaði loftvarnarflauturnar, var svekktur að vera ekki heima þegar hann vissi að æfing yrði þann daginn og reyndi þá að taka flauturnar upp á ipadinn sinn. Eins og ég segi, þau voru ekkert hrædd við þetta, að sjálfsögðu hefði ég ekki neytt þau til að búa í Grindavík ef þau hefðu verið hrædd, mér finnst mikilvægt að það komi skýrt fram.“
Yfirvöld skerast í leikinn
Eftir að fréttaflutningur jókst af hugsanlegu eldgosi innan varnargarða og það gæti hafist fyrirvaralaust, lentu Gréta og Magni í því sem engir foreldrar vilja lenda í, barnavernd fór að hafa afskipti.
„Grindavík var búið að vera rauðmerkt á hættumatskortinu í talsvert langan tíma, a.m.k. tvo mánuði en merkilegt nokk, þá máttu ferðamenn vera í Bláa lóninu á sama tíma og með börn. Börn máttu gista á hótelinu á svæði sem er nær gosstöðvum en Grindavík og nánast beint ofan á landrisinu en mín börn máttu ekki vera heima hjá sér í Grindavík. Hvernig getur það verið eðlilegt? U.þ.b. tveimur vikum áður en eldgosið loksins hófst 22. ágúst, fékk ég símhringingu frá barnavernd. Ég get sýnt því skilning en þarna finnst mér að það hefði mátt athuga hvort ég væri einstaklingur með þroskaskerðingu, hefur barnavernd þurft að hafa afskipti af mínum börnum áður, hve gömul eru börnin mín og hver er vilji barnanna? Ég ætla ekki að segja að þetta hafi komið mér eitthvað sérstaklega á óvart, ég vissi að yfirvöld töldu Grindavík ekki öruggan stað fyrir börn en ég var fyrir löngu búin að missa allt traust á Almannavörnum en eftir þeim fer svo lögregluembættið, ég treysti mér fullkomlega til að meta öryggi barnanna minna. Konan sem hringdi í mig var kurteis og ég veit að hún var bara að sinna starfi sínu en hún var mikið að reyna fá okkur til að flytja í burtu því eldgos væri að hefjast. Reyndar hefur þrýstingi um að yfirgefa Grindavík verið beitt frá öllum vígstöðvum, þ.e.a.s. frá Almannavörnum, Lögreglustjóra, Þórkötlu og Grindavíkurbæ. Ég sagði konunni að ég fylgdist mjög vel með og ég væri fullkomlega fær um að koma mér í burtu, ein loftvarnarflautan væri mjög nálægt húsinu okkar og það tæki mig ekki nema tæpa mínútu að koma mér út á Nesveg ef til rýmingar kæmi. Hún hringdi nokkrum sinnum og ég viðurkenni fúslega að það var aðeins farið að þykkna í mér, ég sagði henni ítrekað að ég treysti mér til að gæta barnanna minna. Eftir nokkra daga komu svo umrædd kona og önnur frá barnavernd í heimsókn til okkar, áfram var sama platan á fóninum, að reyna fá okkur til að yfirgefa Grindavík því hættan væri svo mikil, hið minnsta að senda börnin í burtu. Sama kvöld kom svo lögreglan, þau sögðust vera skrásetja hvar börn væru í Grindavík, frekar skrýtið því ef barnavernd var að vinna með lögreglunni eins og hún var búin að tilkynna mér, vissi lögreglan alveg að það voru börn hjá okkur. Þetta var bara ein útgáfan af þrýstingi til þess fallinn að við ættum að koma okkur í burtu.
Þarna vorum við orðin ansi þreytt á þessu, sonur okkar var hjá vinkonu sinni í Vogum og við ákváðum að hann myndi fara til ömmu sinnar í Reykjanesbæ, ekki að því að við værum svo hrædd um öryggi hans og systur hans, bara svo því sé haldið til haga. Dóttirin fór til pabba síns eins og hún gerir oft hvort sem er og þetta þriðjudagskvöld vorum við Magni ein heima, vorum mest fegin að fá loksins frí frá barnavernd! Ákváðum að hafa það gott, fórum í pottinn og vorum í dágóða stund í honum í blíðskaparveðri, Magni fór svo í sturtu í bílskúrnum og ég inni í húsinu og svo heyri ég hann kalla; „lögreglan er komin.“ Nú var mér allri lokið, ég þurfti að róa mig niður áður en ég þurrkaði mér og fór svo fram, þá var sama kona og ég var búin að vera í sambandi við, komin með lögreglunni en af því að við höfðum ekki svarað símanum þar sem hann var inni, taldi hún sig þurfa að koma til Grindavíkur og athuga með öryggi barnanna. Hvað hélt hún, að við héldum börnunum inni gegn vilja þeirra og vildum ekki svara símanum?! Hefðu þau brotist inn hjá okkur ef við hefðum ekki farið upp úr pottinum á þeim tíma sem við fórum? Á sama tíma og við fréttum af vopnaburði barna, við fréttum af börnum sem búa við slæmar fjölskylduaðstæður vegna drykkju og dópneyslu foreldra, þá telur barnavernd sig þurfa að hafa áhyggjur af mínum börnum því það er svo mikil hætta á eldgosi, hvaða brandari er þetta eiginlega,“ spyr Gréta.
Handklæðinu kastað
Eftir nokkur símtöl frá konunni í barnavernd á þessum tíma sem samskiptin voru í gangi, sagði Gréta viðkomandi að þau væru búin að taka ákvörðun um að selja og flytja í Reykjanesbæ, þau myndu fá afhent um miðjan september og þau myndu fara þá. Þetta dugði konunni ekki, henni var umhugað um öryggi barnanna vegna yfirvofandi eldgoss.
„Ég átti að flytja börnin eða okkur burt í enn eitt skiptið áður en við myndum fá afhent, eins og við værum ekki búin að flytja nógu oft? Barnavernd telur sig sem sagt vita hvað er best eða betra fyrir börnin mín. Konan lagði meira að segja til að við myndum senda börnin okkar annað þangað til við fengjum afhent. Já það er einmitt betra fyrir mín börn að senda þau í burtu frá mér eftir allt sem þau hafa þurft að upplifa síðustu mánuði, hún veit það nefnilega betur en ég, móðir þeirra.“
Eftir síðustu heimsókn konunnar og lögreglu á þessu þriðjudagskvöldi byrjaði sem betur fer að gjósa tveimur kvöldum seinna og á besta stað, síðan þá hefur Gréta blessunarlega ekki heyrt meira frá barnavernd enda „hættan liðin hjá.“
„Okkar plön voru að selja Þórkötlu og leigja til baka. Um tíma virtist það ekki vera í boði, þ.e. að leigja því Þórkatla vildi allt í einu ekki leigja út húsnæðið þar sem svo mikil hætta væri á eldgosi. Enn einn þrýstingurinn. Þessi stöðugi hræðsluáróður er orðinn þreytandi, það er alltaf talað um verstu sviðsmyndina, þótt minnstar líkur séu á að hún raungerist. Þetta allt og eftir að við komumst að því í júní að ég sé orðin ólétt, tókum við ákvörðun um að gefast upp í þessari baráttu okkar og flytja frá Grindavík. Ég hafði ætlað mér að keyra á milli en get ekki hugsað mér það ólétt og illa á mig komin. Ég hef verið í sambandi við aðra konu í Grindavík sem er með börnin sín líka, yngsta barnið hennar er að fara í níunda bekk en hún er búin að fá þær upplýsingar að ekki verði skólaakstur í vetur fyrir grindvísk börn. Grindavíkurbær telur sig stætt á því greinilega, þar sem það er bannað að vera með börn í Grindavík þá telur bærinn sig ekki þurfa koma börnum til og frá skóla, eins og er lögbundið hlutverk sveitarfélags. Við erum því búin að gefast upp og erum að flytja í Reykjanesbæ en ég lofa því að við munum flytja við fyrsta tækifæri aftur til Grindavíkur, það er hvergi betra að vera að okkar mati.“
Hvað ef?
„Ég spyr mig mig oft hvernig mál í Grindavík hefðu þróast ef bæjarstjórnin okkar hefði verið samstíga í mars, þegar tveir bæjarfulltrúar lögðu fram bókun þess efnis að ráðast í að laga bæinn og gera öruggan, og stefna á að skólahald myndi hefjast í haust. Í hvaða sporum værum við núna? Varnargarðarnir breyttu öllu fyrir Grindavík, eftir að þeir voru reistir var ekkert sem mælti á móti því að ráðast strax í framkvæmdir. Það hefur engin sprungumyndun verið í Grindavík síðan í janúar og þær varanlegu viðgerðir á sprungum sem ráðist var í, t.d. við kirkjuna, hafa haldið.
Framkvæmdanefnd Grindavíkur er akkurat að gera sumt af þessu núna og hver veit, kannski hefði ekki þurft að stofna þessa nefnd ef bæjarstjórnin okkar hefði verið samstíga. Þar hefðu sparast tæpir tveir milljarðar og á sama tíma er verið að fárast yfir því að haldið sé úti löggæslu í Grindavík vegna þeirra Grindvíkinga sem þar búa. Fólk sem situr í bæjarstjórn þarf að geta tekið erfiðar ákvarðanir og taka ábyrgð, ekki bara þegar að ákveða á hvort og hvar eigi að byggja nýja sundlaug. Þú stekkur ekki frá borði sökkvandi skips eða breiðir upp fyrir haus þegar áskoranir verða yfirþyrmandi. Með þessari framkvæmdanefnd er ég ansi hrædd um að bæjarstjórn sé búin að afsala sér völdum og að það verði enn erfiðara að fá þau til baka sem gæti komið niður á uppbyggingu. Fyrir hamfarir var Grindavíkurbær eitt best rekna sveitarfélag landsins en núna er staðan þannig að bæjarstjórn sem var kosin lýðræðislega þarf að ráðfæra sig við framkvæmdanefnd Grindavíkur varðandi uppbyggingu og aðgengi að bænum. Það er ennþá verið með lokunarpósta sem kosta tæpan milljarð á ári, algerlega tilgangslausir og valda því að fyrirtæki í Grindavík fá ekki súrefni til að lifa. Hvað á að gera fyrir þessi fyrirtæki? Þau vilja láta opna bæinn svo þau geti lifað en yfirvöld leyfa það ekki, verður ekki ríkið að kaupa þau út?
Þetta allt hefur reynt mikið á sálarlífið og við erum pínulítið búin á því og neyðumst því miður til að flytja en bara tímabundið, við komum til baka um leið og hlutirnir breytast, sem ég vona innilega að verði sem fyrst en það veltur ekki einungis á náttúrunni heldur yfirvöldum sem halda bænum mínum í gíslingu,“ sagði Gréta að lokum.