Með 100 konum á Hvannadalshnjúk
„Árið er auðvitað búið að vera ansi viðburðaríkt hvað þjóðfélagsleg málefni varðar og erfitt að draga fram eitthvað eitt. Persónulegu málin hafa verið mun skemmtilegri,“ segir Bergný Jóna Sævarsdóttir úr Sandgerði.
„Ætli það sem standi ekki einna mest uppúr sé ganga mín á Hvannadalshnúk 19. júní ásamt tæplega 100 öðrum konum. Undirbúningurinn fyrir ferðina var ekki síður eftirminnilegur og fólst í því að ganga á fjöll og firnindi nánast aðra hverja helgi frá byrjun janúar fram að 19. júní. Gangan var markmið sem sett var í lok síðasta árs 2008 og tókst með glæsibrag.
Ég eins og svo margir aðrir fékk að finna fyrir áhrifum efnahagshrunsins, skipti um vinnu á árinu ásamt því að setjast á skólabekk aftur sem er mjög spennandi. Um að gera að líta á þessar breytingar sem eiga sér stað á jákvæðan hátt og sjá tækifæri sem fyrir eru. Ég dáist í raun að þeim jákvæðu röddum sem eru áberandi og nefni þar til dæmis Þjóðfundinn sem haldinn var í haust sem mér fannst frábært framtak. Svo er bara að sjá hvort hann skili árangri eða hvort áframhald verði“.
- Einhver áramótaheit?
„Ég hef ekki verið dugleg að strengja áramótaheit en það tókst þó á síðasta ári. Ég hugsa að markmið ársins 2010 sé að taka á móti árinu með jákvæðni og finna leið til að taka þátt í uppbyggingu þjóðfélagsins á einhvern hátt. Að ógleymdu því markmiði að ná að hlaupa 10 km á innan við klukkustund“.