Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Matarboðin hjá mömmu eru ómissandi
Sunnudagur 17. desember 2023 kl. 12:31

Matarboðin hjá mömmu eru ómissandi

Mikael Tamar Elíasson er sjómaður frá Grindavík. Mikael er lunkinn lagasmiður og spilar á gítar og syngur eins og engill. Hann er mikið jólabarn og finnst sörur vera ómissandi á jólunum.

Hvernig var árið 2023 hjá þér og þinni fjölskyldu og hvað stendur upp úr?

Það ár var mjög gott eins og þau eru flest þó þau komi öll með sínar áskoranir en ferð til Tene með fjölskyldunni var einn af hápunktunum á því herrans ári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ert þú mikið jólabarn?

Já, ég verð að viðurkenna það. Ég hef mjög gaman af hátíð ljóss og friðar. Ljósadýrð loftin gyllir og allt það.

Hvenær er jólatréð yfirleitt sett upp á þínu heimili?

Það fer yfirleitt upp svona um miðjan desember.

Hver eru fyrstu jólin sem þú manst eftir – áttu einhverjar skemmtilegar jólaminningar?

Jólin á Sveinseyri í Dýrafirði, í sveitinni þar sem ég ólst upp sem lítill drengur. Þar var eftirvæntingin eftir jólunum og aðfangadegi gríðarlega mikil. Yndislegar minningar sem ég á þaðan.

En skemmtilegar jólahefðir?

Nei, engar svona afgerandi.

Hvenær klárar þú að kaupa jólagjafirnar?

Ég reyni yfirleitt að vera búin að því í byrjun desember því stundum er ég að koma í jólafrí af sjónum rétt fyrir Þorláksmessu og það er frábær uppskrift að jólastressi að eiga allt eftir degi fyrir jól. Ég hef prófað það einu sinni og það er eitt af markmiðum lífsins að prófa það aldrei aftur.

Hvað finnst þér vera ómissandi á jólunum?

Sörur! Hver bjó þetta bragð-lauka-kítl til? Herre gud. Matarboðin hjá mömmu. Já, öll matarboðin hjá mömmu!

Hver er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þú hefur fengið?

Gítarinn sem mamma og pabbi gáfu mér eitt sinn. Þvílík fegurð og þvílíkur vinur.

Er eitthvað á óskalistanum fyrir jólin í ár?

Já, gítar. Taylor 812ce Indian Rosewood!

Hvað verður í jólamatinn hjá þér á aðfangadagskvöld? Eru hefðir í mat?

Tjaaaa, í gegnum tíðina hefur mamma alltaf boðið okkur í mat á aðfangadag. Þar eru kræsingar á öllum borðum, hamborgarhryggur, hangikjöt, lax ásamt forrétt og eftirrétt. Þó við Grindvíkingar séum að fara halda jólin okkar fjarri Víkinni fögru þá efast ég ekki um að á aðfangadagskvöldi muni ég óska þess að hafa borðað ögn minna en ég gerði.

Hvað ætlar þú að gera í kringum jólahátíðina í ár?

Njóta með fjölskyldu og vinum því fjölskylda og vinir er það allra mikilvægasta sem við eigum.