Markmiðið að hafa gaman í nýrri leiklistarsýningu Þróttar
Ungmennafélagið Þróttur fagnaði 85 ára afmæli nú í vikunni en félagið var stofnað þann 23. október 1932. Starfsemi félagsins hefur ávallt skipað ríkan sess í samfélaginu og haft mikla þýðingu fyrir íbúa sveitarfélagsins að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra Voga.
Nú eru iðkaðar þrjár mismunandi íþróttagreinar á vegum félagsins, sund, júdó og knattspyrna og ætlar félagið einnig að endurvekja starfsemi sína á vettvangi leiklistar. Formaður félagsins er Baldvin Hróar Jónsson og framkvæmdastjóri er Marteinn Ægisson.
Í pistli bæjarstjórans á heimasíðu Voga sendir hann öllum félagsmönnum góðar óskir um áframhaldandi blómlegt starf á vettvangi félagsins.
Vilja setja upp leiksýningu
Ungmennafélagið hyggst stofna leiklistarfélag og af því tilefni er stefnan tekin á það að setja upp nýja leiklistarsýningu. Leitað er eftir þátttakendum í verkefnið sem eru á öllum aldri og eru allir sem hafa áhuga hvattir til að mæta á stofnfund félagsins, hver sem er getur komið á fundinn og vantar söngvara, ljóðskáld, hljóðmenn og fl. í verkið.
„Við viljum virkja sem flesta á mismunandi aldri og fólk getur fengið að spreyta sig á því sem því hefur kannski alltaf langað til að prufa að gera tengt leikhúsi en aldrei látið verða af. Þannig ætti að vera auðvelt fyrir okkur að setja saman sýningu og skipta með okkur verkum til þess að einfalda álagið á hverjum og einum og svo að sem flestir fái að njóta,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Stofnfundur leikfélagsins verður haldinn þann 7. nóvember nk. í Riddaragarði við Stóru-Vogaskóla, en fundurinn er fyrir 16 ára og eldri.