Marína Ósk með sína fyrstu hljómplötu
Söngkonan Marína Ósk hefur sent frá sér fyrstu sólóplötu sína, Athvarf. Platan inniheldur ellefu lög sem öll eru samin og útsett af söngkonunni sjálfri. Platan var tekin upp í Sundlauginni stúdió í mars 2019 og kemur út á geisladiski og á streymisveitum. Útgáfutónleikar verða í Hofi á Akureyri 25. október og í Sunnusal Iðnó í Reykjavík 30. október.
Heiti plötunnar, Athvarf, vísar til þess að tónlist hefur lengi verið Marínu eins konar griðastaður þar sem hægt er að hvíla sig, safna kröftum og leita lausna. „Þegar ég var táningur átti ég það til að loka mig af inni í herbergi, leggjast niður og einfaldlega hlusta á tónlist. „Unplugged“-útgáfur og viðkvæm, akústísk tónlist voru mitt lífsmeðal og gítarinn oftast í forgrunni en þessi tegund hljóðheims hefur alltaf haft mjög róandi og heilandi áhrif á mig. Mig langaði mikið að semja tónlist innan þessa áhrifaríka hljóðheims og úr varð þessi plata sem mestmegnis er leikin af tveimur gítarleikurum og rafbassaleikara.“
Marína ólst upp í heimi klassískrar tónlistar í Keflavík, hreiðraði um sig á poppsenu Akureyrar í dágóðan tíma og hefur síðustu sjö ár einbeitt sér að djassnámi í Hollandi og Svíþjóð. Tónlistin á plötunni er aftur á móti í berskjölduðum söngvaskáldastíl og gítarinn fær mikið pláss. Áhrifa djass og þjóðlagatónlistar má þó vel greina í tónsmíðunum og má kannski með sanni segja að þessi leitandi vegferð milli landa, landshluta og tónlistarstíla hafi leitt Marínu í listrænan hring.
Platan á Spotify: https://open.spotify.com/album/1F0C6cthNy50tCeWRCtkdv