Marína Ósk kvartett heldur tónleika hjá Jazzfjelagi Suðurnesjabæjar á fimmtudag
Suðurnesjamærin Marína Ósk er djasssöngkona af hlýjustu gerð og hefur síðustu ár fest sig rækilega í sessi sem ein af leiðandi djasssöngkonum landsins. Önnur sólóplata hennar, One Evening in July, kemur út í ágúst 2022 hjá sænska plötufyrirtækinu TengTones en fyrsta plata hennar, Athvarf (2019), hlaut lof gagnrýnenda og tvær tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020.
Hún kynnir nú með einlægu stolti sænsk/íslenskan kvartett sinn, Marína Ósk Kvartett, fyrir landi og þjóð en auk Marínu Óskar koma fram rafgítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson, sem er flestum djassunnandanum vel kunnur og margverðlaunuðu sænsku Uppsala-bræðurnir, þeir Johan Tengholm á kontrabassa og Erik Tengholm á trompet, sem kíkja í heimsókn frá Stokkhólmi.
Kvartettinn mun leika sín nokkur af sínum uppáhaldsdjasslögum í eigin útsetningum auk þess að telja í lög af plötunni – og hver veit nema eitthvað óútgefið og nýtt fái að hljóma. Kvartettinn er trommulaus sem skapar afslappaða og heimilislega stemmningu í blússandi stíl við tónlistina, sem flutt er bæði á íslensku og ensku. Styrkleikar þessa spennandi kvartetts liggja í sameiginlegri ástríðu þeirra fyrir tungumáli gömlu djasstónlistarinnar og einlægri spilagleði.
Tónleikarnir verða haldnir í Bókasafni Suðurnesjabæjar í Sandgerði fimmtudaginn 18. ágúst og hefjast klukkan 20:00. Aðgangur er ókeypis.
Jazzfjelagið er styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja, Menningarsjóði Suðurnesjabæjar, Félagi íslenskra hljómlistarmanna og Samkaup.