Marína jassar í Amsterdam
Ung tónlistarkona úr Reykjanesbæ áberandi í tónlistarlífinu fyrir norðan, heldur næst til Amsterdam.
Marína Ósk Þórólfsdóttir er fjölhæf tónlistarkona frá Reykjanesbæ sem margir kannast við, enda hefur hún komið fram ýmist sem söngkona eða þverflautuleikari á fjölmörgum skemmtunum á Suðurnesjunum. Marína hefur komið fram á vegum Tónlistarskólans í Reykjanesbæ, á eigin vegum og einnig með ýmsum hljómsveitum. Hún útskrifaðist með burtfararpróf í djasssöng og þverflautuleik frá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar fyrir tveimur árum. Strax eftir útskrift ákvað hún að flytja norður til Akureyrar og sér ekki eftir því enda hafa verkefnin alls ekki verið af skornum skammti.
Marína fékk vinnu mjög fljótlega hjá Tónlistarskólanum á Akureyri. „Ég var mjög heppin að fá vinnu strax. Mig langaði að breyta til og ákvað að flytja til Akureyrar en var ekki með neitt fast og bjóst alveg eins við því að þurfa að vera á atvinnuleysisbótum og sitja heima og prjóna.“ Það er þó ekki að skapi Marínu þar sem hún hefur alltaf haft mikið fyrir stafni, sem varð einnig raunin á Akureyri.
Eftir mánaðardvöl á Akureyri var Marína ekki aðeins búin að ráða sig í eitt starf, heldur nokkur. Henni bauðst fyrst að kenna forskóla og söng í Tónlistarskólanum á Akureyri. Annar tónlistarskóli í bænum leitaði síðan til hennar og vildi fá hana í flautukennslu. Marína á erfitt með að segja nei og tók hún, auk tónlistarkennslunnar, að sér kórastarf. Í tvö ár hefur Marína stjórnað tveimur kórum í Glerárkirkju sem og Gospelkór Akureyrar.
Víst er að ánægja hafi ríkt með störf Marínu í tónlistarbransanum á Akureyri en sem dæmi má nefna voru 25 manns sem byrjuðu í Gospelkórnum þegar Marína tók við honum en í dag eru hátt í 60 á skrá. Kórarnir koma fram á ýmsum skemmtunum á svæðinu en Marína er einnig mikið fengin til þess að syngja sjálf. „Í sumar hefur verið brjálað að gera í brúðkapum og svo er ég yfirleitt líka á haus í desember,“ en þá er Marína uppbókuð fyrir jólahlaðborðin. Eitt skemmtilegasta „giggið“ kom í kjölfar þess að Marína var beðin um að syngja með Felix Bergssyni á útgáfutónleikum hans á Græna Hattinum. Út frá því var henni boðið að syngja með Gestum út um allt sem var útvarpsþáttur á Rás 2 sem tekinn var upp í Hofi á Akureyri en ýmsir tónlistarmenn komu fram þar. Marína var einnig beðin um að syngja afmælislag Akureyrar en bæjarfélagið varð 150 ára í fyrra.
Marína er alin upp í Keflavík og flutti til Akureyrar sem er bæjarfélag af svipaðri stærðargráðu, en meginmunurinn er sennilega sá að í Reykjanesbæ var Marína mörgum kunnug. Hún þekkti fáa á Akureyri þegar hún ákvað að flytja þangað en hún segir Akureyringa hafa tekið sér ótrúlega vel. „Mér finnst æðislegt að búa hér og í rauninni er virkilega erfitt að fara héðan. Hér eru mörg tækifæri fyrir unga tónlistarmenn og ef maður stendur sig vel, þá opnast margar dyr. Ég hafði alls ekki gert ráð fyrir því að komast svona fljótt inn í samfélagið hér, en ég hef verið ansi heppin. Marína yfirgefur höfuðborg norðursins á næstu vikum en í byrjun september flytur hún til Hollands þar sem hún mun stunda háskólanám í djasssöng við Konservatoríuna í Amsterdam. „Ég er ótrúlega spennt fyrir því að búa í fallegu Amsterdam og að takast á við nýjar áskoranir, vonandi næ ég að aðlagast lífinu þar eins vel og mér tókst á Akureyri,“ segir Marína að lokum.
Myndirnar tók Freydís Heiðarsdóttir