Margrét syngur með Gospelkór Fíladelfíu
Sannkallaðir stórtónleikar verða í Grindavíkurkirkju í kvöld kl. 20:00 með Gospelkór Fíladelfíu. Grindvíkingurinn Margrét Einarsdóttir syngur með kórnum og lofar hún frábærum tónleikum. Þá verður einvala hljómsveit með kórnum en hana skipa þeir Jóhann Ásmundsson og Friðrik Karlsson úr Mezzoforte, Brynjólfur Snorrason á trommur, Jóhann Eyvindsson á slagverk, Hjalti Gunnlaugsson á gítar og Óskar Einarsson á píanó.
Kórinn sér um söng á flestum sunnu-dagssamkomum þar og heldur þar að auki nokkra tónleika á hverju ári. Þekktir eru hinir árlegu jólatónleikar sem sjónvarpað hefur verið með undanfarin 10 ár á RÚV. Dagskrá kórsins er allt fá hefðbundnum sálmum í fjörugt Gospel og allt þar á milli. Kórinn hefur gefið út 5 geisladiska sem hafa selst vel og farið víða. Með kórnum að þessu sinni kemur frábær hljómsveit skipuð landsfrægum hljóðfæraleikurum.
Að sögn Óskars Einarssonar, stjórnanda kórsins, hefur tónlist ávallt skipað stóran sess í starfi Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu og fallegur og kröftugur söngur og gleði er eflaust það sem mörgum dettur fyrst í hug þegar þeir hugsa um kirkjuna.
Árni Arinbjarnarson var tónlistarstjóri kirkjunnar um árabil og byggði upp metnaðarfullt starf sem kirkjan býr enn að í dag. Óskar Einarsson tók við starfi tónlistarstjóra árið 1992 og hefur lagt mikinn metnað í að byggja upp tónlistarstarfið á þeim góða grunni sem fyrir var. Í mörg ár hefur Hrönn Svansdóttir verið hans hægri hönd við að leiða starfið, fyrst sem lofgjörðarleiðtogi í átta ár og nú sem framkvæmdastjóri gospelkórs Fíladelfíu.
Kór kirkjunnar hefur gefið út nokkrar plötur og geisladiska í gegnum árin; Gleðifregn (....), Spurðu mig (1993), Gleði (2004), Sannleik-urinn (2006) og Lífið og þú (2008). Félagar Gospelkórs Fíladelfíu eru allir virkir meðlimir í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu og hafa sumir sungið í kórnum í áratugi.
Undanfarin ár hafa tónleikar kórsins verið sýndir í ríkissjónvarpinu tvisvar á ári. Á vorin hafa verið haldnir hvítasunnutónleikar og í des-ember hinir vinsælu jólatónleikar Fyrir þá sem minna mega sín sem sýndir eru á aðfangadagskvöld.
Aðgangseyrir á tónleika í Grindavíkurkirkju er 1.000 kr. fyrir fullorðna, 500 kr. fyrir börn 13 - 18 ára.