Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Margir tala enn um Bókabúðina
    Ásta Ben Sigurðardóttir, verslunarstjóri „Bókabúðarinnar“.
  • Margir tala enn um Bókabúðina
Sunnudagur 30. nóvember 2014 kl. 10:00

Margir tala enn um Bókabúðina

Verslunarstjóri Pennans Eymundsson hefur ávallt trú á bókinni sem góðri jólagjöf.

Penninn Eymundsson er í húsnæði gömlu Bókabúðar Keflavíkur og Ástu Ben Sigurðardóttur verslunarstjóra þykir vænt um að hún sé af mörgum enn kölluð einfaldlega Bókabúðin. Mikið vöruúrval, sérþekking og góð þjónusta séu það sem skiptir máli. 
 
„Já, er þetta í Bókabúðinni?“ segja margir af eldri kynslóðum sem hringja í Pennann Eymundsson í Reykjanesbæ. Ásta Ben Sigurðardóttir verslunarstjóri segir það mjög vinalegt og að henni þyki vænt um það. „Þrátt fyrir samkeppnina við verslanir í Reykjavík er sem betur fer alltaf fólk sem vill bara kaupa í Bókabúðinni og notar það nafnið. Svo er einnig fólk sem vill hafa slíka verslun á svæðinu og kýs þess vegna að versla hér. Hugurinn hjá þessu fólki skiptir miklu máli.“
 
 
Miklu meira en bókabúð
Ásta telur að fólki myndi bregða við ef bókabúðin færi. „Við erum ekki bara bókabúð. Við þjónustum fyrirtæki líka, erum svo mikil pennabúð. Eymundsson hlutinn er bækur, blöð, diskar og slíkt. Penninn er svo með rekstrarvörur eins og pappír, blekhylki og það sem þarf í rekstur fyrirtækja. Svo erum við með alla skólana; fjölbrautaskólann, Keili, Miðstöð símenntunar og alla grunnskólana. Það er bara frábært og sýnir fjölbreytileikann sem við fáumst við hér og erum að þjónusta stórt svæði. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því.“
 
 
Allr bækurnar í bókatíðindum 
Aðventan og tíminn þegar skólar hefjast eru stórar vertíðir hjá bókabúðum og ritfangaverslunum. Ásta segir að mikill jólahugur sé í henni og að hún hugsi jákvætt. „Ég held að bókin komi alltaf sterk inn sem jólagjöf. Við erum með allar nýjustu bækurnar og allar bækurnar í bókatíðindum en stórmarkaðarnir eru bara með rjómann af þeim, þær allra vinsælustu. Einnig seljum við geisladiskar, DVD myndir og höfum mikið úrval af gjafavöru. Við útvegum allt, pökkum inn, bjóðum upp á skiptimiða og erum með fólk á gólfinu með sérþekkingu og veitir góða þjónustu. Þetta skiptir allt máli. Svo er fimm prósenta afsláttur fyrir þá sem eru í vildarklúbbnum okkar og það munar um minna. Við erum oft með tilboð líka í tengslum við vildarklúbbinn og þá oft meiri afslátt,“ segir Ásta að lokum.  
 
 
 
 
VF/Olga Björt
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024