Maraþontónleikar í Njarðvíkurskóla
Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, elsta deildin, heldur maraþontónleika á sal Njarðvíkurskóla sunnudaginn 28.september frá kl. 14-19.
Tónleikarnir eru vegna væntanlegrar tónleikaferðar sveitarinnar til Orlando í Florida. Þetta er þriðja tónleikaferð lúðrasveitarinnar til útlanda, en fyrirrennarar hennar, LTK og LTN fóru í all margar tónleikaferðir út fyrir landsteinana, meðan þær störfuðu, allt til ársins 1999.
Í þessari ferð mun LTR spila í Disney World og fyrir leik í NBA-deildinni auk fjölda annarra tónleika og viðburða.
Maraþontónleikarnir hafa tvenns konar tilgang; annars vegar eru þeir mikilvæg æfing fyrir lúðrasveitina og hins vegar liður í fjáröflun.
Kaffisala verður á tónleikunum milli kl.15 og 17.
Það er því upplagt fyrir Suðurnesjamenn og aðra áhugasama, að gera sér dagamun og koma á flotta lúðrasveitartónleika í Njarðvíkurskóla þennan dag, gæða sér á ilmandi kaffi og nýbökuðu meðlæti og leggja þessu góða málefni lið.
Lúðrasveitin hefur fyrir löngu skipað sér í fremstu röð íslenskra skólalúðrasveita og ævinlega verið bæjarfélaginu til sóma.
Mynd-Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar á Ljósanótt.
Mynd-VF/IngaSæm