Maraþon og óvættir meðal atburða á Ljósanótt
Reykjanesmaraþon
Einn af árlegum viðburðum á Ljósanótt er Reykjanes maraþon Lífstíls. Keppt er í eftirtöldum vegalengdum, 3.5 km, 10 km og 21 km. Flögu tímamæling verður notuð í 10 og 21 km vegalengdum en ekki í skemmtiskokkinu. Rásmark og endamark verða við Vatnaveröld í Keflavík. Forskráning er á vefnum hlaup.is og lýkur henni á föstudeginum fyrir hlaupið, þar má einnig sjá nánari upplýsingar um hlaupið.
Óvættir og aðrar vættir
Listasafn Reykjanesbæjar tók s.l. vetur þátt í norrænu listverkefni ásamt listasöfnum bæði í Noregi og Svíþjóð og mun verkefnið enda á sýningum í öllum löndunum nú í haust. Íslenska sýningin Óvættir og aðrar vættir, opnar fimmtudaginn 1. september kl. 14.00 í Bíósal Duushúsa og er þar með á dagskrá Ljósanætur, menningar- og fjölskylduhátíðar Reykjanesbæjar. Á sýningunni má sjá tæplega 60 verk frá öllum þremur þátttökulöndunum. Verkefnið gekk út á að hópur 12-14 ára unglinga í þessum þremur löndum var fenginn til að myndskreyta þjóðsögur úr heimahögunum og voru til þess notaðar grafískar aðferðir. Íslenski hópurinn kom frá Myllubakkaskóla í Keflavík og vann hópurinn út frá sögunni Rauðhöfði undir stjórn myndmenntakennarans Sigríðar Ásdísar Guðmundsdóttir og Elvu Hreiðarsdóttur formanns félagsins Íslenskrar grafíkur en félagið hafði milligöngu um verkefnið. Hin söfnin voru Dalarnas Museum í Svíðjóð og Haugesund Billedgalleri í Noregi. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði og mun sýningin standa út september.
Tónleikar unga fólksins – fjör í Frumleikhúsinu
Í tengslum við Ljósanótt hafa í mörg ár verið haldnir sérstakir tónleikar fyrir yngri kynslóðina í Frumleikhúsinu. Þarna hefur gefist tækifæri fyrir nýjar hljómsveitir að reyna sig og margir af okkar bestu tónlistarmönnum stigu sín fyrstu spor við þetta tækifæri. Menningarhús ungs fólks í Reykjanesbæ, 88 húsið, stendur að tónleikunum og að venju kemur fjöldi hljómsveita fram, nöfn þeirra má sjá á vefnum ljosanott.is. Tónleikarnir eru að sjálfsögðu vímuefnalausir og eru fimmtudagskvöldið 1. september og hefjast kl. 20.00.
Bíla- og bifhjólasýning
Bílalest ásamt bifhjólum leggur af stað niður Hafnargötuna kl. 15.00 á laugardeginum. Lestin endar för sína við Duushús og verða ökutækin til sýnis á Keflavíkurtúni. Þátttakendur í lestinni eru m.a. frá bifhjólaklúbbnum Örnum, Bifhjólaklúbbi Suðurnesja, fornbílaklúbbi Íslands, Jeppaklúbbnum 4X4 og Krúser félagi áhugamanna um akstur og bíla.