Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mannbætandi mynd
Sunnudagur 29. júlí 2012 kl. 07:09

Mannbætandi mynd

Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur þarf vart að kynna, hvorki fyrir Suðurnesjamönnum né öðrum landsmönnum. Hún er keflvískur orkubolti sem spriklaði í fimleikasalnum á Sunnubrautinni og lék og lærði í Myllubakka-, Holta- og Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Frá árinu 2004 hefur hún fengist við hin ýmsu þáttagerðarstörf hjá RÚV og því verið gestur í stofum landsmanna í heil 8 ár. Lengst af hefur hún verið fréttamaður í Kastljósinu en undanfarið hefur hún að mestu sinnt hugarfóstri sínu Ísþjóðinni en þá þætti má segja að hún eigi frá a-ö. Minna hefur þó farið fyrir verkefni sem hefur verið í vinnslu síðastliðin 5 ár en þann 7. ágúst verður heimildamynd hennar ,,Hrafnhildur“ frumsýnd í Bíó Paradís.

Í heimildarmyndinni fylgist Ragnhildur Steinunn með kynleiðréttingarferli transkonunnar Hrafnhildar og fylgir henni m.a. í heimsóknir til geðlækna og í hormónameðferðir. Þegar hún réðist í verkefnið hafði hún enga tengingu við heim transfólks en segir þó hugmyndina hafa orðið til fyrir mörgum árum síðan.

„Hugmyndin kviknaði í rauninni fyrir mörgum árum, þó ég hafi kannski ekki alveg gert mér grein fyrir því þá. 16 ára þjálfaði ég Völu Grand í fimleikum í Keflavík og hugsaði með mér að það væri áhugavert að fylgja þessari stelpu eftir en þá var hún lítill strákur. Ég hitti svo Völu aftur fyrir fimm árum og sagði henni að mér hefði dottið í hug að gera heimildamynd um kynleiðréttingaferli. Ég byrjaði að taka upp viðtöl við Völu en síðan kynnti hún mig fyrir Hrafnhildi og við vorum sammála um að saga Hrafnhildar hentaði betur fyrir myndina.“

Ragnhildur Steinunn og unnusti hennar Haukur Ingi byrjuðu að vinna saman að heimildaöflun fyrir 5 árum síðan en upptökur hófust ári síðar.

„Haukur Ingi er menntaður í sálfræði og hann vann alla heimildavinnu fyrir myndina.

Við gátum þannig reynt að setja okkur inn í hugarheim fólks sem gengur í gegnum þessa reynslu. Við ferðuðumst meðal annars til Tælands þar sem kynleiðréttingar eru mjög tíðar. Við ræddum þar við fjöldann allan af einstaklingum sem höfðu leiðrétt kyn sitt.“

Hvaða þýðingu heldur þú að þessi heimildarmynd hafi fyrir transfólk?

„Ég held að myndin hafi mikla þýðingu fyrir transfólk. Hún gefur sýn inn í þeirra hugarheim og baráttu – fyrir þeim er kynleiðrétting ekki valkostur heldur nauðsyn. Barátta transfólks er rétt að byrja og núna í júní voru til að mynda samþykkt lög til að tryggja transfólki jafna stöðu á við aðra, nokkuð sem átti sér stað fyrir nokkrum árum hjá samkynhneigðum.“

Að sögn Ragnhildar Steinunnar hefur mikill tími, blóð, sviti og tár farið í gerð þessarar heimildamyndar. Nú styttist þó óðum í að hún þurfi að klippa á naflastrenginn og leyfa myndinni að lifa sjálfstæðu lífi í sýningarsölum og sjónvarpi.

„Það er mjög skrýtin tilfinning sem fylgir þeirri tilhugsun að myndin verði senn frumsýnd. Í 4 ár hef ég vitað nánast allt um líf annarrar manneskju, hvernig henni líður og hvað hún er að fara gera hverju sinni. Hún hefur verið hluti af mínu lífi og ég hennar. Núna heldur Hrafnhildur áfram með sitt líf og ég mun snúa mér að öðrum verkefnum. Við munum sjálfsagt báðar upplifa ákveðið tómarúm svona fyrst um sinn. Svo fylgir svona verkefni gífurlega mikil vinna. Það er tímafrekt og getur reynt mjög á þolrifin. Ég held að fólk geri sér almennt enga grein fyrir hversu mikil vinna liggur á bak við gerð svona myndar. Ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því sjálf þegar ég byrjaði, þrátt fyrir að hafa unnið í sjónvarpi í mörg ár! Að búa til heimildarmynd er í raun vesen frá a-ö, þannig er það nú bara. Ég hef margoft viljað hætta við á miðri leið og hreinlega ekki nennt að standa í þessu en það er alltaf eitthvað sem togar mann áfram, einhver þörf til að segja frá. Eftir þessa vinnu var ég staðráðin í að ráðast ekki í heimildarmyndagerð aftur en viti menn ég er byrjuð á nýrri mynd! Það kemur í ljós síðar um hvað sú mynd er.“

Hrafnhildur verður sýnd í Bíó Paradís frá 7. ágúst og RÚV mun einnig taka hana til sýningar í október.

Hvaða væntingar hefur þú til myndarinnar þegar svo stutt er í frumsýningu?

„Ég vona einfaldlega svo innilega að fólk geri sér ferð í bíó. Það er mannbætandi að sjá þessa mynd“.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024