Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Málar fræga fólkið
Miðvikudagur 5. júní 2013 kl. 07:07

Málar fræga fólkið

- Myndlistaráhuginn kviknaði í vondu veðri

Ásta Dagmar Jónsdóttir hefur undanfarin ár dundað sér við það að mála í frístundum sínum. Hún sótti myndlistartíma í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á sínum tíma en annars segir hún sjálf að vefsíðan youtube sé ansi góður kennari. „Ég byrjaði að mála fyrst árið 2010. Það var vont veður úti svo ég ákvað að prufa að mála mynd sem ég var búin að vera með hugmynd af í hausnum lengi. Hún heppnaðist þokkalega og þá kviknaði áhuginn,“ segir hin 23 ára gamla Keflavíkurmær. Hún segir listina vera áhugamál en hún var að eigin sögn aldrei neitt sérstaklega góð að teikna sem barn. Samt hafi hún þó verið dugleg við það að krota. „Ég er í raun ekki góð að teikna enn þann dag í dag. Það tekur mig yfirleitt langan tíma að teikna upp myndirnar en mér hefur alltaf þótt það mjög gaman og geri mikið af því, krassa eitthvað meðan ég horfi á sjónvarpið og svona.“

Aðallega fæst Ásta við það að mála portrett myndir af frægu fólki. Þá sér í lagi tónlistar - og íþróttamönnum. Hún segist grípa í pensilinn þegar andinn komi yfir hana. „Ég dett svona í og úr gír. Stundum mála ég mikið og stundum nenni ég því alls ekki,“ segir Ásta. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hún er nú búsett í Kópavogi en hún vinnur hjá Reykjavík Excursions þar sem hún safnar sér pening fyrir námi. Hana langar þá helst í grafíska hönnun, teiknimyndagerð eða einhversskonar margmiðlun. Ásta segist hafa fengið nokkur viðbrögð við myndunum sínum en hún hefur birt flestar þeirra á facebook samskiptavefnum. Hún kann vel að meta það að fólki líki það sem hún er að fást við. Þegar blaðamaður spyr svo hvort myndirnar séu til sölu þá virðist eftirspurnin vera mikil. Flestar myndir sem hún hefur málað hafa verið seldar til þessa. Sú nýjasta sem er af körfuboltasnillingnum Michael Jordan er svo þegar frátekin.

Hér má svo sjá skemmtilegt myndband frá Ástu þar sem nýjasta verkið fæðist en neðar má sjá verk hennar.

Hér eru svo nokkur af verkum Ástu.

John Lennon.

Ray Charles.

Rapparinn Kanye West.

Kobe Bryant.