Magnaður tónlistarskóli en vantar meiri fræðslu
Ágæta bæjarstjórn!
Ég heiti Jón Ragnar Magnússon og ég er fulltrúi Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ég sem fulltrúi tónlistarskólans ætti að benda ykkur á hvað er hægt að bæta í skólanum en ég get það bara ekki þannig að ég ætla að þakka ykkur innilega fyrir að byggja þennan nýja tónlistarskóla. Skólinn er orðinn svo magnaður að hann er eiginlega nær því að vera félagsmiðstöð heldur en tónlistarskóli.
Næst langar mig að tala um sundlaugina okkar. Nú kostar fyrir grunnskólabörn í sundlaugina og ég ætla ekki að kvarta yfir því, enda er það frekar ódýrt. Hins vegar finnst mér að opnunartíminn mætti vera lengri, því á kvöldin er tíminn þegar mörg ungmenni hafa bæði orku og tíma í að skella sér út í sund. Ég og vinir mínir höfum oft planað að fara í sund eftir æfingar og löbbum út í Sundmiðstöð en þá er búið að loka. Okkur þykir þetta bara leiðinlegt því við höfum yfirleitt ekki tíma um daginn til að skella okkur í sund út af skóla og æfingum.
Strætókerfið okkar var allt í lagi þar til fyrir stuttu og maður skildi hvernig það virkaði. En núna er orðið erfiðara að skilja hvernig það virkar heldur en að læra geimvísindi. Strætóinn kemur oft á vitlausum tíma og maður veit aldrei hvert hann er að fara, hvenær og klukkan hvað. Ég veit að ég hef rætt um þetta áður en ég verð að minnast á þetta aftur því þetta hefur aldrei verið svona óskipulagt. Krakkar eru að missa af æfingum út af strætóinn kemur ekki. Ég skil að strætóferðum er að fækka vegna fjárhagsstöðu bæjarins en það er ekkert mál að hafa planið skipulagðara því það gengur ekki að ef að fólk í bænum okkar er að missa af atburðum út af óskipulagi.
Mín hugmynd er að fá annað hvort jafn margar ferðir og voru eða láta þá sem ferðast með strætó eftir klukkan 19.00 greiða lítinn pening.
Fræðsla í grunnskólunum er orðin miklu fleiri enda hefur mikið verið beðið um það. T.d Akurskóli hefur fengið mikla fræðslu um nánast allt sem þarf að vita þegar þú eldist. Ég er nemandi Njarðvíkurskóla og ég get staðfest það að fræðslan sem við erum að fá er ekki nægjanlega mikil. Kennarar og stjórnendur skólans eru of uppteknir að hugsa bara um að klára bækur og ekkert annað en eitthvað bóklegt. Við höfum fengið fræðslu en alltaf um sömu hlutina. Flestir á elsta stigi í skólanum mínum vita ekkert hvernig t.d fjármál virka. Þau kunna kannski að reikna og lesa en vita ekkert hvað þau gera þegar þau t.d flytja að heiman. Þetta er ekki eins í öllum skólunum hérna í Reykjanesbæ en mér finnst það sjálfsagt að við ættum að fá sömu fræðslu og aðrir krakkar í öðrum skólum. Jafn margar fræðslustundir í öllum skólunum hérna og aukum fræðslu fyrir nemendur.