Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lúxusfleyta í Keflavíkurhöfn
Þriðjudagur 8. júní 2004 kl. 20:52

Lúxusfleyta í Keflavíkurhöfn

Tuttugu metra glæsibátur liggur nú við festar í Keflavíkurhöfn en báturinn kom frá Nýfundnalandi í gærkvöldi. Fimm eru í áhöfn bátsins, auk eigandans og fjölskyldu hans sem nú ferðast um suðvesturhluta Íslands. Skipstjóri bátsins er Paul Sewell en hann ásamt Lindu eiginkonu sinni hafa búið um borð í bátum síðustu árin.
„Ég og Linda konan mín ráðum okkur í skipspláss hvar sem er í heiminum, en við höfum verið á þessum bát í tvö ár. Ég sé um skipstjórnina og Linda sér um að elda ofan í mannskapinn. Okkur líkar vel við lífið á sjónum,“ segir Paul en siglingin frá Saint John á Nýfundnalandi tók alls átta daga. Paul segir að þau hafi fengið ágætisveður meiri hluta leiðarinnar utan rúman sólarhring. „Við lentum í lægð á leiðinni og þá var 15 hnúta vindur og ölduhæðin mikil. Það voru ansi mikil læti þá.“

Bátnum verður næstu vikur siglt norður fyrir landið og segir Paul að stoppað verði í mörgum höfnum á leiðinni. Eigendur bátsins hafa áhuga á Íslandi og vilja nota tímann vel hér og skoða. „Þegar við komum austur fyrir landið þá munum við leggja á hafið til Lófóten í Noregi. Þaðan munum við síðan sigla niður með vesturströnd Noregs,“ segir Paul en frá Noregi heldur báturinn til Svíþjóðar og þaðan til Eystrasaltsríkjanna.
„Við höldum síðan áfram til Skotlands þar sem við munum sigla töluvert og síðan til Bretlands. Báturinn verður síðan geymdur í Southampton í Bretlandi í vetur, en næsta vor höldum við áleiðis til Miðjarðarhafsins.“

Paul og Linda eiginkona hans hafa siglt um öll heimsins höf og þau kunna flökkulífinu vel. En hvernig er það fyrir hjón að búa saman svo vikum skiptir á bát sem þessum? „Það er frábært og maður þarf að hafa rétta hugarfarið, en auðvitað er það ekki fyrir alla. Okkur líkar það mjög vel og vildum ekkert annað gera,“ segir Linda.

Þau munu stoppa í Keflavíkurhöfn í nokkra daga og sagði Paul að kannski gæfist tími til að skoða sig aðeins um en áhöfnin yfirfer nú bátinn. Hjónin verða á siglingu fram í nóvember og fara þá í vetrarfrí, en hefja siglingar á bátnum aftur með vorinu. „Umhverfið hér er fallegt og það væri gaman að ná að skoða sig um áður en við leggjum í hann aftur.“

Myndirnar: Paul og Linda í brú bátsins en þau munu ferðast með bátnum fram í nóvember. Báturinn verður geymdur í Southampton í vetur og næsta sumar munu þau halda til Miðjarðarhafsins. Skútan er 20 metra löng og mjög vel búin að innan sem utan.

VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024