LOKAORÐ Sævars: Hugtakið sigurvegari
Alþingiskosningar eru ný afstaðnar og það má með sanni segja að þær hafi verið tíðindamiklar. Það er nú ekki ætlun mín að kvelja fólk með enn einum pistlinum um kosningarnar og skil ég vel ef flestir lesendur hafi hætt lestri eftir fyrstu setninguna en ég má hins vegar til með að fagna hinni nýju túlkun hugtaksins „sigurvegari“ í kjölfar þessara kosninga.
Ég, sem fyrrum bekkjarsetumaður í íþróttum, stóð nefnilega ávallt í þeirri meiningu að hugtakið „sigurvegari“ væri notað um það lið sem endaði með flest stig að lokinni keppni. Það virðist þó hafa verið algjör misskilningur því að loknum alþingiskosningum enduðu nánast allir uppi sem „sigurvegarar“ ef marka má formenn flokkanna.
Einn flokkur lýsti sig sigurvegara því hann hefði fengið flestu þingmennina. Annar flokkur lýsti yfir sigri því hann hafði fengið svo marga þingmenn en aldrei tekið þátt áður. Ákveðnir flokkar voru sigurvegarar því þeir bættu við sig svo mörgum þingmönnum frá því sem áður var. Þá var einn flokkur sigurvegari því þeir náðu að halda sjó og unnu þar að leiðandi „varnarsigur“. Að lokum lýsti einn flokkur yfir sigri málefna sinna því þeir gátu ómögulega lýst flokknum eða forystumönnum hans sem sigurvegara enda hafði hann nánast þurrkast út af þingi.
Einhverjir kynnu að segja að þessi víða túlkun hugtaksins „sigurvegari“ gengisfelli hugtakið. Því er ég ekki sammála. Mitt mat er að þetta sé jákvæð þróun og geti hjálpað manni að viðhalda hamingju og ánægju við hin ýmsu tækifæri. Getið þið til dæmis ímyndað ykkur hversu frábært það er fyrir aðdáendur enska boltans að geta notað orðið „sigurvegari“ um öll sín lið í framtíðinni, hvernig svo sem gengur og hvort sem viðkomandi heldur með Arsenal, Everton eða WBA? Liðið sem fær flest stig að keppni lokinni er sigurvegari. Liðið sem kom upp um deild og slapp við fall er sigurvegari. Liðin sem enduðu í 4. og 5. sæti árið áður en enda í 2. og 3. sæti núna eru sigurvegarar. Liðið sem hélt sjó og endaði í sama sæti og árið áður er sigurvegari auk þess sem liðið sem féll er meira að segja líka sigurvegari því leikkerfið sem þeir spiluðu var notað af öðrum liðum í deildinni og þar af leiðandi eru þeir sigurvegarar. Hamingjan er því alls staðar og allir eru sigurvegarar, nema auðvitað Framsóknarflokkurinn og Manchester United...
Sævar Sævarsson