Lokaorð Sævars: Framsóknarleiðin og Chevy Chase
Þeir sem fylgjast eitthvað með íslenskum körfubolta vita að val á erlendum leikmönnum skiptir miklu máli. Aldrei hefur það þó skipt eins miklu máli og þegar „framsóknarleiðin“ var tekin upp af KKÍ og farið var að reka körfuboltann á Íslandi eins og landbúnaðarkerfið. Framsóknarleiðin felst auðvitað í hræðsluáróðri um að erlend vara sé mikið dýrari, hún komi í veg fyrir vöxt þeirrar íslensku og útrými henni algerlega að lokum. Nauðsynlegt sé því að hygla íslensku vörunni á kostnað þeirrar erlendu með kvótasetningu. Íslenska varan er þar af leiðandi komin í einokunarstöðu, hækkar í verði og minna verður um gæðavöru á markaði.
Í ár eru liðin 12 ár síðan Hermann Helgason, fyrrum formaður KKDK, ákvað að ráða og reka Jimmy Miggins frá Keflavík. Þessi mikli heimspekingur var aðeins í þrjár vikur en skildi þó eftir minningar sem lifa að eilífu. Hann var gangandi „one-liner“, þ.e. svör hans og athugasemdir voru yfirleitt í stuttum frösum eða setningum. Ekki ósvipað Chevy Chase, einum besta gamanleikara sögunnar!
Jimmy var handviss á fyrsta degi að kaninn í kvennaliðinu væri ekki fyrir karlmenn. Við félagarnir þrættum við hann um stund en sammældumst loks um að hann hringdi í hana til að komast að því. Símtalið var afar stutt en eftir að hún neitaði að hitta hann um kvöldið því hún ætti „partner“ í Bandaríkjunum endaði Minkurinn, eins og hann var kallaður, símtalið með þessari ódauðlegu línu; „Come on girl – it´s not like I´m asking you to bend over and touch your toes“.
Þegar við ungu leikmennirnir í Keflavík sóttum Jimmy á FIT-Hostel, þar sem hann gisti í byrjun, spurðum við hann hvort hann vildi ekki koma með okkur á sportbar sem byði upp á „tveir fyrir einn“ stóð ekki á svarinu; „Well, there sure ain´t no happy hour over here...”. Þess ber að geta að Jimmy Miggins var yfirleitt aldrei edrú, hvorki fyrir eða eftir æfingar né leiki. Drukknastur var hann líklega daginn fyrir úrslitaleik Norðurlandamóts félagsliða í Osló í Noregi sem við enduðum á að vinna og hann átti glimrandi leik. Við vorum auðvitað ekki fyrr komnir upp í flugstöð á leið okkar til Noregs en okkar maður var búinn að að gera kaupsamning um miniature áfengisflöskur í fríhöfninni. Aðspurður hvað hann væri að hugsa sagði hann; „It´s gonna be a smooooth flight...“.
Fljótlega eftir að heim var komið var hann rekinn, ekki aðeins vegna lakrar frammistöðu á vellinum heldur einnig vegna þess að honum þótti sopinn einum of góður. Þegar Gunnar Stefánsson var á leið með kappann upp í flugstöð tók hann eftir útvarpi sem Jimmy hafið keypt í Samkaup með „matarmiðum”. Gunnar spyr hann furðulostinn hvort hann ætli virkilega að fara með útvarpið með sér heim enda annað rafmagnskerfi í Bandaríkjunum. Svarið kom á óvart; „No, drive by Hermann´s store! I´m going to throw this into his window...”. Áðurnefndur Hermann hafði þá verið sá sem rak hann og vildi Jimmy launa honum lambið gráa með því að brjóta rúðu í skóverslun hans áður en hann færi úr landi.
Já, ekki er öll vitleysan eins en á meðan framsóknarleiðin er við líði er ólíklegt að svona líflegir karakterar heiðri okkur með nærveru sinni.