Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Óvenjulegt
Ég held að mest notaða orðið þessa dagana sé orðið „óvenjulegt“. Það er allt eitthvað svo óvenjulegt. Það er óvenjulegt veðurfar, tíðin er óvenjulega góð og óvenjulegt að það sé vorveður í desember. Ástandið í stjórnmálunum er mjög óvenjulegt, kosningarnar voru á óvenjulegum tíma við óvenjulegar aðstæður, óvenjulega margir flokkar náðu á þing, óvenjulega margir nýliðar og óvenjulega margar konur kjörnar. Það er líka óvenjulegt að það taki svona langan tíma að mynda ríkisstjórn. Fyrir mig persónulega er óvenjulegt á aðventunni að vera ekki alla daga fram á nótt á Alþingi, en á sama tíma var það líka mjög óvenjulegt að ég væri á Alþingi nú í vikunni við þingsetningu. Ég átti satt að segja ekki von á því þegar ég hélt mína síðustu (að ég hélt) ræðu þar í október. Það er því óvenjulega mikið af óvenjulegum hlutum að gerast.
En þá koma blessuð jólin og allt sem þeim fylgir og bjarga málum. Þau vega upp allan óvenjuleikann með venjum, siðum og hefðum sem ekki má hrófla við. Að minnsta kosti ekki heima hjá mér - ég er nefnilega ekki íhaldsmaður fyrir ekki neitt. Ég held að mesta ábyrgð sem mér hefur verið falin í lífinu...og þá er ég að tala í fyllstu alvöru...sé sú að synir mínir vaxi úr grasi og eigi eins og ég dásamlega minningu af jólum og jólahaldi. Pressan er á mér - það má ekkert klikka. Ég tek það fram að það er enginn sem setur þessa pressu á mig nema ég sjálf. Og ég vil helst hafa allt alltaf eins. Þegar ég var barn á Garðaveginum var jólatréð alltaf á sama stað, alltaf eins skreytt, alltaf lagt eins á borð og rjúpan alltaf í jólamatinn. Ég held mikið í þær hefðir sem ég ólst upp við en við fjölskyldan höfum líka skapað okkar eigin. Notalegar hefðir, sumar skrýtnar, en allar bera þær jólin inn í húsið okkar.
Það er því ekkert óvenjulegt við jólin og undirbúning þeirra á mínu heimili, en á sama tíma er sannarlega heldur ekki neitt venjulegt við jólin og undirbúning þeirra, þar sem það eru jú ekki alltaf jólin og jólin sjálf eru tilbreyting við annað sem gerist á árinu. Þannig eru jólin því líka aðeins óvenjuleg.
En eins og venjan er í aðdraganda jóla þá óska ég lesendum Víkurfrétta gleðilegra jóla og vona að þau verði óvenjulega góð í ár.