Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Landvinningar
Í starfi mínu sem ráðherra hef ég búið við þau forréttindi að vera í návígi við nýsköpun nánast alla daga. Ég hef unnið með frumkvöðlum, heimsótt þá og þeir mig, ég hef kynnst þeirra heimi og þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir á hverjum degi. Ég hef unnið þétt með stoðkerfi nýsköpunar, opinberu sem einkareknu, háskólum og fjármögnunaraðilum og höfum við í sameiningu lagt okkur fram um að bæta starfsumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar hér á landi og gera það framúrskarandi.
Heimur frumkvöðulsins heillar mig. Það er eitthvað ólýsanlega spennandi við þá tilhugsun að búa eitthvað til, skapa eitthvað, „fatta upp á“ einhverju eins og krakkarnir segja, sjá drauminn verða að veruleika. Þetta er rómantísk hugsun, tilhugsunin um að vera sjálfstæður og frjáls er afar heillandi. Sérstaklega akkúrat í augnablikinu.
Og þá er svo gott að hafa fyrirmyndir, fylgjast með sókn og sigrum, læra af mistökum (helst annarra manna mistökum) og verða innblásinn af dugnaði og elju þeirra sem á undan hafa farið.
Ein slík fyrirmynd varð á vegi mínum í New York fyrir skömmu - Sigurður Hilmarsson, eða Siggi í „Siggi's skyr.“ Ég hitti hann reyndar fyrst fyrir rúmum áratug þegar hann sem frumkvöðull var að stíga sín fyrstu skref. Þá var hann nýhættur í þægilegu innivinnunni sinni á fjármálamarkaði í New York, vinnunni sem hann sem hagfræðingur hafði menntað sig til. Eftir að hafa búið um nokkurra ára skeið í Ameríku var hann farinn að sakna íslenska skyrsins, fannst allt jógúrt sem hann fann of sætt og uppfullt af alls konar gerviefnum. Og þá lá beinast við að fara að búa til sitt eigið skyr...eðlilega. Hann fékk uppskrift senda frá móður sinni, breytti eldhúsinu í litlu íbúðinni sinni í skyrverksmiðju og boltinn fór að rúlla. Hann fór að framleiða í litlu magni, seldi á bændamörkuðum og í sælkerasérverslunum við góðan orðstýr.
Spólum nú fram til dagsins í dag. Siggi er löngu fluttur með framleiðsluna úr litla eldhúsinu sínu, enda farinn að selja til yfir 11 þúsund verslana um öll Bandaríkin. Við hjónin rákumst á vörurnar frá Sigga alls staðar þar sem við komum...á Starbucks, í Whole Foods, í Target, hjá kaupmanninum á horninu og í litlu versluninni á hótelinu. Siggi er jafn hógvær og hann var fyrir öllum þessum árum þegar ég hitti hann fyrst, auðmjúkur gagnvart velgengninni og trúr hugsjóninni um að viðhalda gæðunum og hreinleika vörunnar sem hann kennir við íslenska upprunann og uppskriftina frá mömmu sinni.
Saga Sigga er saga nútíma landvinninga, Siggi hefur unnið hvert vígið á fætur öðru, ekki með látum og blóðsúthellingum eins og víkingar fortíðarinnar, heldur með metnaði, dugnaði og sýn nútímavíkingsins. Einföld hugmynd, söknuður eftir hinu gamla dreif hann áfram til landvinninga dagsins í dag.
Það er alveg spurning um að grafa upp gömlu kleinuuppskriftina frá ömmu Eiríku....það er aldrei að vita hvert hún gæti tekið mann?
Ragnheiður Elín Árnadóttir.