Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Æfing í þolinmæði
Miðvikudagur 7. júní 2017 kl. 06:00

Lokaorð Ragnheiðar Elínar: Æfing í þolinmæði

Nú eru liðnar rúmlega þrjár vikur síðan ég fékk nýja „diskókúlu“, en það er aðeins yngra og ferskara orð yfir nýju mjaðmakúluna mína sem ég kom með heim frá Svíþjóð. Þetta er nefnilega pínu viðkvæmt - ungt fólk fer öllu jöfnu ekki í mjaðmakúluskipti, þetta er meira svona ‘gamlakallaogkellingagigtarvesen’. Lengi vel var það þannig að fólki á mínum aldri var ráðið frá því að fara í svona aðgerð, láta sig heldur hafa það, taka verkjatöflur og bíta á jaxlinn, því kúlan myndi ekki endast og menn þyrftu hvort sem er að fara aftur. Sem betur fer er þetta viðhorf á undanhaldi og fólki undir fimmtugu nú „hleypt“ í svona aðgerðir til að laga íþróttameiðslin og kúlurnar endast von úr viti með tilheyrandi auknum lífsgæðum.


Aðgerðin gekk að óskum og bataferlið er á áætlun. Verkefni mitt er ekki flókið - ég á að taka því nú rólega í 6-8 vikur á meðan allt er að gróa. Og njóta þess að láta stjana við mig.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þar vandast málið.


Þolinmæði hefur aldrei verið mín sterkasta hlið og ég hef heldur aldrei átt auðvelt með að biðja um aðstoð. Þó ég muni ekki sérstaklega eftir frumbernsku minni get ég ímyndað mér að ég hafi verið týpan sem sagði alltaf „nei..ég get sjálf“ þegar einhver ætlaði að aðstoða mig. Þess vegna er það dálítið gott á mig núna að vera í þeirri stöðu að hreinlega mega ekki gera einföldustu hluti sjálf og vera upp á aðra komin.


En það má margt af þessu læra. Ég er í fyrsta lagi þakklát fyrir það að þetta er tímabundið ástand og að ég verði fljótlega aftur orðin eins og ný. Það eru ekki allir svo lánsamir. Ég er líka þakklát fyrir það að eiga ótrúlega góða að sem eru boðnir og búnir að aðstoða mig í einu og öllu. Það er heldur ekki sjálfsagt. Ég hef líka lært að hlutirnir ganga bara ágætlega án mín og öll verkefnin sem ég var með samviskubit yfir því að þurfa að setja á pásu í nokkrar vikur fara ekki neitt. Það hafa allir skilning á því að heilsan gengur fyrir og bíða bara rólegir eftir að ég og kúlan verðum tilbúin að stökkva af stað aftur.


Og vitiði...ég viðurkenni að þetta er bara dálítið ljúft og ég er að læra að njóta þessa tíma án samviskubits. Hver þáttaröðin á eftir annarri á Netflix klárast og það er farið að ganga vel á bókastaflann á náttborðinu. Þolinmæði er bara dálítið kúl.


Ég hef líka lært að meta litlu sigrana sem skipta verulega miklu máli. Í morgun gat ég til dæmis í fyrsta sinn frá aðgerð klætt mig sjálf í nærbuxur án þess að nota hjálpartækjastöngina góðu. Það er stórmál!