Lokaorð Örvars: Strákar í byssuleik
Skiptar skoðanir eru á vopnaburði lögreglunnar og svo hefur verið í talsverðan tíma. Það má samt segja að umræðan hafi sjaldan eða aldrei verið jafn hávær og núna. Á undanförnum vikum á fjölmennum mannamótum þá hefur sést til vopnaðra lögreglumanna sem hefur ollið talsverðum deilum í samfélaginu, þá helst á samfélagsmiðlum þar sem flest mál eru leidd til lykta nú til dags.
Flestir sýnist manni vera lítið að kippa sér upp við þetta en svo er vissulega hópur sem er alfarið á móti þessu. Umræðan er oftast málefnanleg og báðir aðilar færa ágæt rök fyrir sínu máli en þó hafa ákveðnir stjórnmálamenn innan Vinstri grænna sem dæmi, keppst við að gera lítið úr lögreglunni m.a kallað þessa ágætu starfsstétt „stráka í byssuleik“ og að henni sé ekki treystandi fyrir neinni ábyrgð. (Það mætti ímynda sér ofsafengin viðbrögð í samfélaginu ef t.d Brynjar Níelsson kallaði hjúkrunarfræðinga „stelpur í dúkkuleik“ næst þegar sú stétt á í kjaradeilum en það er samt útúrsnúningur.) Þarna er látið eins og að menn séu að gera þetta af gamni sínu og með einhverjar annarlegar hvatir í huga.
Vissulega þarf að taka umræðuna um þessi mál og hún er bráðnauðsynleg en mikið pirrar það mig að sjá kjörna fulltrúa stjórnmálaflokka tala niður til lögreglunnar á þennan hátt. Mættu frekar reyna að finna fjármagn handa þessari fjársveltu stétt! Persónulega hef ég afar góða reynslu af þessari ágætu starfsstétt (nema þegar ég hef verið sektaður) og þekki mikið af gæðafólki sem þar starfar en auðvitað eru svartir sauðir í þessari stétt sem og öllum öðrum. Heilt yfir er lögreglan okkar mjög vel þjálfuð og það er staðreynd að lögreglumenn æfa nú talsvert mikið meðhöndlun og notkun skotvopna. Mig grunar að fæstir lögreglumenn kjósi það að bera skotvopn alla daga en vildu gjarnan hafa þau nálægt t.d í læstum boxum í bifreiðum sínum ef þannig aðstæður kæmu upp þar sem til þeirra yrði að grípa. „Við erum með óvopnaða lögreglu, bara kylfur“ hefur maður ofar en ekki sagt við erlenda gesti með stolti og það réttilega en tímarnir hafa heldur betur breyst. Það er nóg að horfa til nágrannalanda okkar og skoða þau hryðjuverk sem þar hafa verið framin á síðustu árum. Á þeim bænum svífast menn einskis í illsku sinni og þótt það sé stórt „EF“ þá er það eigi að síður möguleiki að eitthvað álíka gæti gerst hér á landi. Við getum líka horft okkur nær, morðið á ungri konu í byrjun janúar sem þjóðin upplifði í miklum hryllingi – hrottafengið morð á ungum manni fyrir framan fjölskyldu og vini í Mosfellsveit fyrir skemmstu. Þótt ekkert okkar vilji það að lögreglan beri skotvopn að staðaldri þá tel ég það engu að síður óhjákvæmilegt í ljósi þeirrar þróunnar sem hefur verið.
Sorglegt en ég treysti því fólki sem starfar á þessum vettvangi og hefur þekkinguna og reynsluna til þess að meta þetta. Ef þeirra mat er á þann veginn þá samþykki ég það með glöðu geði og það pirrar mig nákvæmlega ekki neitt að sjá vopnaða lögreglumenn.