Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Lokaorð Örvars: Ljósanótt í fýlu
Miðvikudagur 30. ágúst 2017 kl. 19:00

Lokaorð Örvars: Ljósanótt í fýlu

Það líður senn að stórglæsilegu hátíð okkar bæjarbúa Ljósanótt og það verður að viðurkennast að oft hefur tilhlökkunin verið mun meiri. A.m.k. hjá undirrituðum. Þrátt fyrir mikinn uppgang í bænum okkar og jákvæð teikn á mörgum sviðum þá svífur hér yfir dökkt og mengandi ský sem heitir United Silicon. Verksmiðjan stór-gallaða hefur verið mikið á milli tannanna á fólki síðan hún tók til „starfa“ og sá fnykur/mengun sem berst frá henni hefur reitt flesta (ef ekki alla) íbúa bæjarfélagsins til mikillar reiði. Íbúar troðfylltu Stapann í síðustu viku og mótmæltu verksmiðjunni hástöfum og það virðist vera þverpólitísk samstaða meðal bæjarbúa að vilja þessa verksmiðju burt. Það má heldur ekki gleyma því að flestir þeir sem sóttu hvað harðast í að reisa þessa verksmiðju eru eflaust jafn vonsviknir og aðrir íbúar yfir öllu þessu „klúðri“ og viðvaningshætti sem hefur einkennt rekstur verksmiðjunnar frá upphafi. Mörgum finnst nú vera alveg nóg komið og hafin er fjársöfnun til þess að standa straum af málsóknum gegn fyrirtækinu. Reiðin í bæjarfélaginu hefur stigmagnast og er að ná hámarki,  nú þegar tekið er að hausta og Ljósanótt er að ganga í garð. Það ætti frekar að vera gleði og eftirvænting hjá bæjarbúum en svo er nú aldeilis ekki hjá mörgum. Stóra spurningin er hvaða vindáttir verða um helgina þegar Ljósanótt gengur í garð, verðum við heppin eða óheppin? Það eina jákvæða sem ég sé við það að stækjan verði hér ríkjandi um helgina er sú að þá getur utanbæjarfólk fundið lyktina/mengunina uppá eigin spýtur. Margir nefnilega sem telja þetta helvítis væl í okkur fyrir sunnan. Viðurkenni það fúslega að í upphafi taldi ég persónulega fólk vera að „ýkja“ þessa upplifun sína stórlega af þessari mengun (enda bý ég í Mekka bæjarins, I-Njarðvík þar sem lyktin er alltaf góð) en góður félagi minn bauð mér í heimsókn fyrir einhverjum vikum síðan út í ákveðið hverfi Keflavíkurmegin, lyktin og stækjan fóru fram úr mínum viltustu draumum í ógeðisstuðlum. Fékk í rauninni smá sjokk, þetta var alls ekki boðlegt og mun verra en grunur lék á. Það er samt til slatti af fólki sem hefur ekki fundið þessa lykt, það vekur undrun mína en ég ætla samt alls ekki að rengja það. En lyktin er ekki það versta svo sem heldur öll þau heilsuspillandi áhrif sem verksmiðjan hefur á fólk og skepnur. Baráttan gegn United Silicon og óánægjan mun eflaust halda áfram enda sér maður ekki fram á að United Silicon sé unnt að koma með viðunandi úrbætur úr þessu. En við ætlum samt ekki að láta þetta á okkur fá um helgina og Ljósanótt mun ganga sinn vanagang, dagskráin í ár er glæsileg og bæjarbúar geta verið stoltir af þessari hátíð. Munum bara að koma með góða skapið – vel klædd og með klemmu fyrir nefinu ef þannig vindátt er í kortunum. Spái því að við verðum heppin, veðrið leiki við okkur og hátíðin fari að vanda vel fram. Gleðilega hátíð kæru bæjarbúar, gangið hægt um gleðinnar dyr!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024