Lokaorð Ingu Birnu: Ó-fyrirmyndir
Flest eigum við okkur fyrirmyndir. Fyrirmyndir sem hafa haft áhrif á okkur og mótað okkar viðhorf og gildismat. Jafnvel haft áhrif á það hvernig manneskjur við erum. Það mótmæla því eflaust ekki margir að það sé hverjum manni hollt að eiga sér góða fyrirmynd. Góðar fyrirmyndir sem afreka hluti eða lifa sínu lífi á eftirtektarverðan og eftirsóknarverðan hátt.
En hvað er „góð“ fyrirmynd? Fyrirmyndir eru mennskar og fólk hefur breyskleika. Þegar maður þekkir fyrirmynd sína ekki persónulega vitum við eingöngu það sem við lesum um eða sjáum um viðkomandi og fyllum inn í eyðurnar varðandi restina. Þannig setjum við fyrirmyndina yfirleitt á stall sem í raun enginn gæti lifað eftir, því öll erum við mannleg og breysk. En hvað vitum við þegar öll sagan er sögð?
Fyrir nokkrum árum hélt ég fyrirlestur þar sem ég ræddi einmitt mínar fyrirmyndir og með hvaða hætti viðkomandi aðilar hefðu haft áhrif á mig. Það var hollt en á sama tíma skrýtið að fara í gegnum það. Fyrirmyndir mínar voru bæði aðilar nátengdir mér en líka fólk sem ég hafði aldrei hitt, eingöngu fylgst með og lesið um. Ein slík fyrirmynd var goðið Michael Jackson. Ég hlustaði á og dansaði með tónlistinni hans daginn inn og út á yngri árum. Mér fannst mikið til hans koma og þar á meðal hvernig hann notaði frægðina og ímynd sína til góðra verka. Nú hefur hins vegar komið í ljós að hann misnotaði líka frægðina gagnvart ungum drengjum og fjölskyldum þeirra um áratuga skeið á ógeðfelldan hátt, eins og fram kom í heimildarmyndinni „Leaving Neverland“ sem sýnd var á RÚV í sl. viku.
Þessi heimildamynd situr í mér. Ég er með óbragð í munni og varð verulega óglatt af meintri áratuga kynferðislegri misnotkun goðsins á ungum og saklausum drengjum. Goðsins sem ég hlustaði á daglega sem unglingur, goðsins sem ég dansaði með, goðsins míns sem ég fann til með þegar ég eltist. Þetta leiðir að sjálfsögðu hugann að fyrirmyndum yngri kynslóða og áhrifum þeirra á þær. Samfélagsmiðlar eru þar mjög áhrifaríkur miðill. Það mætti halda því fram að þau sem hafi flesta fylgjendur þar séu áhrifavaldar og jafnvel fyrirmyndir komandi kynslóða upp að vissu marki.
Maður spyr sig því hvaða viðhorfum og gildum Kylie Jenner, Selena Gomez, Cristiano Ronaldo, Justin Bieber og Kim Kardashian West séu að fara að skila til komandi kynslóða?
Eru þetta góðar fyrirmyndir? Ég leyfi mér að efast um það.