Logi og Ingibjörg á Víkurfréttamyndum
Silfurdrengurinn Logi Geirsson og körfuknattleikskonan Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir virðast vera heitasta parið í dag ef marka má fréttir netmiðla á borð við karfan.is og dv.is. Báðir þessir miðlar hafa fjallað um það að þau Logi og Ingibjörg hafi sést saman á fyrri leik Keflavíkur og Njarðvíkur í Toyotahöllinni um helgina.
Karfan.is birtir eftirfarandi umfjöllun um parið á vef sínum: „Silfurhafinn úr Íslenska handbolta landsliðinu, Logi Geirsson var mættur í Toyotahöllina í gær að fylgjast með leik Keflavíkurstúlkna gegn KR. Logi var þar komin til að styðja kærustu sína, Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttir sem leikur með liði Keflavíkur. Logi átti hinsvegar í smá basli með að fylgjast með leiknum þar sem að ungviðið í Keflavíkinni var fljótt að „spotta“ kappann og kröfðu hann um eiginhandaráritun. Kappinn varð að sjálfsögð við þeirri bón“.
Þá segir dv.is að parið sást um helgina á rúntinum á Hafnargötunni í Keflavík á glæsilegum Hummer H2 jeppa. Ingibjörg sat við stýrið á meðan Logi slakaði á í farþegasætinu með sólgleraugu og nóg af geli í hárinu eins og honum einum er lagið.
Það var hinn ungi og efnilegi ljósmyndari okkar, Páll Orri Pálsson, sem tók meðfylgjandi myndir af parinu í íþróttahúsinu í Keflavík um liðna helgi.